Elísabet Englandsdrottning sló Bill Gates til riddara í gær í Buckingham höll. Drottningin viðurkenndi fyrir stofnanda Microsoft, sem jafnframt hefur mikið látið að sér kveða í mannúðarmálum, að hún væri ekki mikið tölvuséní. "Hún sagði að allir krakkir notuðu tölvur og þær hefðu mikið notagildi... en innsláttur á lyklaborð væri henni ekki jafn eðlilegur og ungu fólki," sagði Gates við fréttamenn þar sem hann stóð undir svartri regnhlíf í hellidembu í London, að því er segir í Reutersfrétt.

Gates, einn ríkasti maður heims, fær titilinn KBE (Knight Commander of the Most Excellent Order of the British Empire) í viðurkenningarskyni fyrir framlag sitt til viðskipta og góðgerðarmála. Hann fær þó ekki að titla sig "Sir" því hann er hvorki breskur ríkisborgari né ríkisborgari í breska samveldinu.

Byggt á frétt á heimasíðu Tæknivals.