Bill Gates, stofnandi Microsoft er aftur orðinn ríkasti maður heims samkvæmt lista Forbes.

Gates, sem verið hafði  í efsta sæti listans yfir ríkustu menn heims síðustu 13 ár, féll niður í þriðja sæti í fyrra þegar bandaríski fjárfestirinn Warren Buffett skaust upp fyrir hann auk þess sem mexíkóski viðskiptajöfurinn Carlos Slim Helu var í öðru sæti.

Gates er þó í efsta sæti listans í ár en auðæfi hans eru að sögn tímaritsins metin á um 40 milljarða Bandaríkjadali. Næst á eftir kemur fyrrnefndur Warren Buffet með auðæfi upp á 37 milljarða dali og þá Carlson Slim Helu með um 35 milljarða dala auðæfi.

Lausafjárkrísan hefur nokkur áhrif á listann í ár en um 330 manns missa sæti á listanum yfir þá sem geta talist til milljarðamæringa í ár þar sem töluverður fjöldi þeirra hefur glatað stórum hluta af auðæfum sínum.

Þannig er talið að Bill Gates hafi tapað allt að 18 milljörðum dala í efnahagskrísunni síðasta árið. Hann er þó sem fyrr segir ríkasti maður heims því hann tapaði ekki jafn miklu og félagar hans á toppnum en Forbes telur að Buffett hafi tapað um 25 milljörðum dala.

Rétt er að taka fram að hér er að miklu leyti um að ræða rýrnun á hlutabréfagengi þeirra félaga. Það sem gerði það að verkum að Buffett skaust upp fyrir Gates í fyrra var að hlutabréf í fjárfestingafélagi hans voru metin á um 150 þúsund dali hver hlutur. Síðan þá hefur gengi bréfa félagsins lækkað um 47%.

Á lista Forbes eru aðeins 44 einstaklingar sem ná að auka við auðæfi sín milli ára á meðan 656 manns tapa eignum milli ára. Sem dæmi má nefna að sá eini í topp 20 sætum listans sem náði að auka við auðæfi sín var Michael Bloomberg, borgarstjóri New York.