Bill Gross, sem stýrir PIMCO, stærsta skuldabréfasjóði heims, segir Grikkland stefna í greiðslufall. Í frétt Bloomberg er haft eftir honum að lækkun á lánshæfiseinkunum Frakklands, Austurríkis og fleiri Evrópuríkja sýni að sjálfstæð ríki geti bognað undan afborgunum sínum.

Grískir embættismenn munu hitta fulltrúa lánadrottna gríska ríkisins á miðvikudag eftir að upp úr viðræðum slitnaði í síðustu viku vegna ósættis um skuldaskipti. Embættismenn ESB og kröfuhafar vilja ná fram helmingun á nafnvirði grískra skulda með því að skipta út útistandandi skuldabréfum fyrir ný bréf, en ekki hefur náðst samkomulag um kjör á þessum nýju bréfum.

PIMCO er nú með um þriðjung sinna eigna í bandarískum ríkisskuldabréfum og segir Gross að stærstur hluti eigna fjárfesta í ríkisskuldabréfum eigi að vera í bandarískum bréfum, svo lengi sem enn séu líkur á hruni í Evrópu.