Bill Gross, stofnandi og fjárfestingastjóri hjá eignastýringafyrirtækinu Pimco hætti störfum þar í gær og mun hefja störf hjá fyrirtækinu Janus Capital Group og stýra þar sjóði.

Samkvæmt frétt Bloomberg hafa verið töluverðar deilur innan Pimco og hefur Gross verið ósammála stjórn fyrirtækisins um framtíðarstefnu þess. Er stjórnin sögð hafa íhugað að segja Gross upp eftir að tveir undirmenn hans hótuðu að hætta sjálfir. Annar þeirra, Daniel Ivascyn, hefur nú verið ráðinn fjárfestingarstjóri hjá Pimco.

Gross er mjög virtur innan fjármálageirans og ítök hans mikil. Í gær seldu miðlarar eignaflokka allt frá skuldabréfaafleiðum til ríkisskuldabréfa vegna óvissu sem þeir telja að uppsögn Gross hafi í för með sér.

Uppsögn Gross kemur einnig á sama tíma og greint var frá því að sjóðurinn Pimco Total Return ETF sé nú til rannsóknar hjá bandaríska fjármálaeftirlitinu vegna gruns um að sjóðurinn hafi ekki verðmetið eignir sínar rétt. Nánar tiltekið er til  rannsóknar hvort sjóðurinn hafi ofmetið virði ákveðinna eigna með það að markmiði að gefa í skyn að ávöxtun sjóðsins væri betri en raun bar vitni.