Jóhannes Stefánsson, aðstoðarmaður Illuga Gunnarssonar, segir í nýrri færslu á Facebooksíðu sinni að ráðherrabíll menntamálaráðherra sé metinn á rétt tæplega 2 milljónir króna.

Jóhannes segist hafa heyrt í mötuneyti embættismanna að talað væri um að ráðherrar keyrðu um á milljón dollara bílum, og því hafi hann verið vakinn til umhugsunar um hversu margar milljónir dollara Audi S6 2008 árgerð menntamálaráðuneytisins væri metinn á.

Í ljós kemur eftir stuttan útreikning að bíllinn er metinn á um það bil 0,015 milljónir Bandaríkjadala, eða um 2 milljónir króna á gengi dalsins í dag. Þá segir einnig að meiri peningur hefði farið í að senda bílinn í viðgerð, eða rétt yfir 2 miljónir króna, á síðasta ári.

„Ef ráðuneytið fengi milljón dollara til að kaupa ráðherrabíl gæti það því keypt 65 eins ráðherrabíla, sem myndi duga til að fylla bílastæðið fyrir utan ráðuneytið tvisvar (ég taldi). Það væri næs!” segir Jóhannes í uppfærslu sinni.