Fólk af þúsaldarkynslóðinni svokölluðu hefur ekki sýnt einkabílaeign jafnmikinn áhuga og forfeður hennar. „Forgangsröðin er kannski orðin önnur. Fólk ferðast meira og ég held að þangað til fólk er komið með barn sem þarf að koma í leikskóla og umhverfið breytist getur það verið meira bíllaust,“ segir Erna Gísladóttir og nefnir í þessu samhengi sjálfkeyrandi bíla. Hluti viðtalsins við Ernu birtist á vb.is í gær.

„Ég held til dæmis að þegar sjálfkeyrandi bílarnir koma þá horfum við á að það verður einn bíll á heimili. Við sjáum fram á, miðað við þá tækni sem við höfum séð á fyrirlestrum erlendis hjá framleiðendum okkar, að bíllinn keyrir þig í vinnuna, síðan keyrir hann makann í vinnuna og svo fer hann bara heim. Hann þarf ekkert að leggja í bænum. Hann pantar sjálfur tíma á verkstæði og kemur sér sjálfur þangað.“

Gæti staðan ekki orðið sú innan nokkurra áratuga að það verði 0,1 bíll á heimili, að bílar muni þjóna öllum?

„Já, örugglega fyrir ákveðinn hóp. Erlendis gera menn ráð fyrir að fólk vilji bæði. Þú vilt til dæmis geta keyrt því stórum hópi fólks finnst mjög gaman að keyra. Við sjáum fólk flytja á svæðin kringum borgina, til dæmis á Selfoss, og vinnur í Reykjavík. Þér finnst kannski gaman að keyra og ef við verðum komin með alvöru vegakerfi, sem við erum ekki almennilega með í dag, þá keyrir þú hluta leiðarinnar sjálfur og hefur gaman af. Síðan þegar þú ert kominn upp á Ártúnshöfða, þá er hætt að vera gaman að keyra. Þá tekur bíllinn bara við og þú byrjar að svara tölvupóstum og ert kominn í þitt umhverfi. Ákveðin kynslóð verður örugglega alveg bíllaus. Okkur finnst samt gaman að fara út í náttúruna og í sumarbústaðinn og þá þarftu meira bíl.“

Leitin að arftaka sprengihreyfilsins

Erna segir spennandi að fylgjast með þróuninni, bæði í sjálfkeyrandi bílum en ekki síður í bílum með aðra orkugjafa en bensín og dísil, eins og vetnis- og rafbíla.

„Þar sjáum við líka þörf fyrir innviðafjárfestingar og spurningar um hvernig við ætlum að takast á við það. Það er ekki nóg að segja að þú viljir hafa hér alla á rafbílum heldur hvernig ætlum við að koma upp öllum tengjum og svoleiðis.“ „Þín kynslóð til dæmis,“ segir Erna og vísar þar til blaðamanns, sem verður þrítugur á næsta ári, „þeim finnst ekkert mál að stinga í samband. Fólk er vant að hlaða símann daglega. Dóttir okkar var á rafbíl og henni fannst þetta ekkert mál. Fyrir okkur hin sem erum vön að fara á bensínstöðina, þá er þetta allt öðruvísi. En við verðum auðvitað að fá innviði sem gera manni kleift að hlaða þegar þú ferð niður í bæ eða Kringluna. Það er hluti af því sem vantar.“

Rafbílar eru, enn sem komið er, þó nokkuð dýrari en hefðbundnir bílar. Það segir þó ekki alla söguna. „Rekstrarkostnaðurinn er miklu minni. Hann er nánast enginn. Þetta er svolítið reiknisdæmi,“ og kostnaðurinn mestur við kaup en verður svo minni eftir því sem á líður. „En þeir hafa farið lækkandi í verði og eru að verða ódýrari. Þeir eru auðvitað ennþá flestir minni bílar, en hægt og rólega mun þetta breytast.“

BL selur langflesta rafbíla á Íslandi. Í fyrra var fyrirtækið með 58,5% markaðshlutdeild í rafbílum og Erna áætlar að hlutfallið verið 70% í ár. BL selja meðal annars Nissan Leaf, mest selda rafbíl í heimi. „Þeir eru mjög langt komnir og byrjuðu mjög snemma. Við höfum fylgst mikið með þeim og vorum snemma með þá hér og tekið þátt í þessu ævintýri með þeim. Hægt og rólega hafa aðrir verið að koma inn. Svo er spurning hvað gerist með vetnið, við fáum vetnisbíl á næsta ári frá Hyundai sem á að draga upp undir 400 kílómetra,“ en algengt uppgefið drægi á Nissan Leaf er í kringum 300 kílómetra á einni hleðslu.

Vetnisbílar kalla, ólíkt rafbílum, á uppsetningu á sérstökum vetnisstöðvum. Að fylgjast með leitinni að orkugjafa til að koma í stað hefðbundinna bíla er ekki ósvipað því að fylgjast með veðhlaupahestum sem eru við það að spretta fram á hlaupabrautina. Maður veit ekkert hver mun bera sigur úr býtum. Sem stendur virðast flestir veðja á rafbílinn „en það hefðirðu líka sagt um metan fyrir tíu árum. Þetta er svolítið eins og VHS og Betamax. Hvar endum við? Endum við í rafmagninu eða verð­ ur þetta blanda? Rafmagnið er náttúrulega mjög skynsamlegt fyrir okkur. En við höfum grænt rafmagn. Evrópa er ekki með neitt sérstaklega grænt rafmagn þannig að það verður ekki endilega sama græna byltingin þar og hjá okkur. Það mun hafa mikil áhrif.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.