Fjárfestar hafa tekið jafnvirði 1000 milljarða dollara úr nýmarkaðsríkjum á undanförnu ári, samkvæmt nýjum gögnum frá hollenska sjóðstýringarfyrirtækinu NN Investment Partners sem CNN Money greinir frá . Um er að ræða hærri upphæð en þá sem flúði nýmarkaðsríki í alþjóðlegu fjármálakrísunni 2008-2009.

Helstu ástæður fjármagnsflóttans eru sagðar vera þær að hægt hafi á vexti hrávörueftirspurnar í Kína, auk þess sem framboð olíu hefur ekki verið meira í hlutfalli við eftirspurnina eftir henni í langan tíma. Hvoru tveggja kemur harkalega niður á hrávöruútflytjendum. Mörg nýmarkaðsríki eru í þeim hópi.

Auk þessa hafa væntingar um vaxtahækkanir í Bandaríkjunum haft sín áhrif. Fjárfestingar í nýmarkaðsríkjum geta verið arðbærari en fjárfestingar í þróaðri mörkuðum, en þær eru alla jafna áhættusamari. Eftir því sem hærri ávöxtun býðst í Bandaríkjunum verður landið ákjósanlegri áfangastaður fyrir fjármagn í samanburði við önnur ríki með vanþróaðri markaði.

Meira en 52 milljarðar dollara hafa verið fjarlægðir úr rússneska hagkerfinu það sem af er þessu ári, og 48 milljarðar dollara úr því brasilíska. Þá er einnig vitað að talsverður fjármagnsflótti hefur verið frá Kína, en upphæðin er ekki þekkt með vissu. Um daginn felldi Kasakstan gengi gjaldmiðils síns um 25 prósent.