Heildargjöld ríkissjóðs munu fara yfir 1 billjón árið 2023 samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2019-2023. Nákvæmlega verða útgjöldin því 1.012,3 milljarðar króna árið 2023 en í ár eru þau áætluð 807,2 milljarðar króna. Hlutfallslega nemur aukningin 25% yfir fimm ára tímabilið.

Mest er gert ráð fyrir að fastafjárútgjöld (þ.e. fjárfesting) og laun hækki á tímabilinu. Gert er ráð fyrir að fastafjárútgjöld verði 40,9 milljarðar árið 2023 samanborið við 25,5 milljarða í ár en það er 60% aukning. Þá er gert ráð fyrir að launakostnaður fari úr 189,2 milljörðum árið 2018 í 251,8 milljarða árið 2023 en það er 33% aukning.

Í flokkun eftir hagrænni skiptingu ríkisútgjalda er aðeins gert ráð fyrir að einn liður lækki á frá 2018 til 2023 en það eru vaxtagjöld sem áætlað er að dragist saman um 9%.

Eins og Viðskiptablaðið hefur sagt frá sakar Samfylkingin ríkisstjórnina um hægristefnu með skattalækkunum fjármálastefnunnar  sem flokkurinn segi að auki ójöfnuð. Í fjármálaáætlun er gert ráð fyrir lækkun tryggingagjalds, bankaskatts og lægra þreps tekjuskatts og afnáms virðisaukaskatts á bækur .