Greiningardeild Arion banka hefur birt nýja skýrslu þar sem raungengi krónunnarer skoðað út frá ýmsum einsleitum vörum sem eru seldar út um allan heim. Vísitölunni svipar til Big Mac vísitölunnar svokallaðri. Sú vísitalan byggir á því að skoða hvað einsleit vara kostar á tveimur stöðum eftir að leiðrétt hefur verið fyrir nafngengi gjaldmiðlanna. Með töluverðri einföldun væri hægt að segja að ef lögmálið haldi ekki þá séu gjaldmiðlarnir rangt skráðir gagnvart öðrum.

Þar sem McDonalds er ekki á íslandi, og háir innflutningstollar þrýsta upp matvælaverði á Íslandi þá tók Greiningardeildin fimm einsleitar vörur sem seldar eru um allan heim og kannaði verð á þeim. Vörurnar voru Malm kommóða, Billy bókahilla, Iphone 6, Timberland skór og nýr kjóll úr Zöru.

© vb.is (vb.is)

Greiningardeildin bendir á að könnun sé bæði óformleg og óvísindaleg þótt að niðurstöður hennar séu áhugaverðar þegar þær eru settar í samhengi við raunverulega þróun raungengis að undanförnu.

Raungengi íslensku krónunnar styrktist töluvert á síðasta ári og var það að meðaltali 4% sterkara en ári áður. Við lok árs 2015 var svo komið að raungengið fór yfir meðaltal sl. 20 ára, í fyrsta skipti síðan í ársbyrjun 2008. Greiningardeildin segir að ef fari sem á horfi þá gæti svo farið að raungengi styrkist umfram það sem er heppilegt til að viðhalda viðskiptaafgangi við útlönd.