Einn frægasti prestur og predikari Bandaríkjanna, Billy Graham, sem veitti öllum helstu forsetum landsins síðustu ár sálgæslu frá tímum Eisenhower, er látinn 99 ára að aldri. Hann fæddist 7. nóvember 1918, tók trú 16 ára gamall og eignaðist 5 börn með konu sinni og fjöldamörg barna- og barnabarnabörn.

Er hans meðal annars minnst fyrir að hafa neitað aðskilnaði trúflokka og kynþátta á samkomum sínum að því er segir á vef nbcnews . Þakkaði Dr. Martin Luther King Jr. stuðningi Graham og vinskap meðal annars árangur sinn í réttindabaráttu blökkumanna í Bandaríkjunum.

Graham lést á heimili sínu í Montreat Norður Karólínu í morgun en á síðustu árum hefur hann glímt við krabbamein, lungnabólgu og ýmis veikindi. Kona hans, Ruth Graham lést árið 2007.

Ferðaðist til 185 landa

Billy Graham var einn fyrstu sjónvarpspredikaranna og náði hann með boðskap sinn og frægar krossferðir til meira en 215 milljón manna beint í ferðum sínum um allan heim, og enn fleiri í gegnum sjónvarp og útvarp. Ferðaðist hann til 185 landa, og skrifaði fleira en tvær tylftir bóka, margar hverjar sem urðu metsölubækur.

Fékk hann jafnframt viðurnefnið forstöðumaður eða Prestur Bandaríkjanna eftir að hafa þjónað öllum forsetum landsins frá Dwight Eisenhower til George W. Bush. Hann hætti að ferðast árið 2005 en síðasta krossferð hans það ár var studd af 1.400 kirkjum af 82 mismunandi trúarflokkum og hreyfingum kristinna, en hann neitaði að taka afstöðu í mörgum erfiðum deilumálum kristinna sín á milli og við aðra að því er New York Times segir frá .

Margir Íslendingar þekkja Billy Graham frá því að Morgunblaðið birti fastan pistil eftir hann í mörg ár, en predikunum hans var oft sjónvarpað beint hingað til lands líkt og til annarra landa. Hafa allir helstu fréttamiðlar heims birt fréttir af andláti hans í dag, þar á meðal tók Time magazine saman umfjöllun blaðsins um predikarann frá því í upphafi til okkar daga.

Washington Post tók saman viðbrögð ýmissa leiðtoga heims við fréttunum:

  • Donald Trump Bandaríkjaforseti tísti:

„Hinn mikli Billy Graham er látinn. Það var enginn honum líkur! Hans verður saknað af kristnum og öllum trúarbrögðum. Mjög sérstakur maður.“

  • Mike Pence varaforseti:

„Trúboð Billy Graham á fagnaðarerindi Jesú Krists og mögnuð rödd hans breytti lífi milljóna,“ tísti Pence. „Við syrgjum brotthvarf hans, en ég er þess fullviss að hann heyrði í dag þessi orð sögð við sig: vel gert góði og dyggi þjónn.“

  • Barack Obama fyrrum forseti Bandaríkjanna:


„Billy Graham var auðmjúkur þjónn sem bað fyrir svo mörgum, og með visku sinni og göfgi, gaf kynslóðum Bandaríkjamanna von og leiðsögn.“

  • Jimmy Carter fyrrum forseti Bandaríkjanna:

„Rosalynn og ég erum mjög sorgmæddi að heyra af andláti forstöðumannsins Billy Graham,“ sagði Carter í yfirlýsingu.

„Óþreytandi boðskapur hans um samfélag og von, mótaði hann trúarlegt líf tuga milljóna manna út um allan heim. Víðsýnn, fyrirgefandi, og umburðarlyndur í því hvernig hann kom fram við aðra, þá var hann vitnisburður um líf Jesú Krists með því að vera stöðugt að leitast eftir tækifærum til þjónustu.“

  • George H.W. Bush fyrrum Bandaríkjaforseti:

„Billy Graham var prestur Bandaríkjanna. Trú hans á Krist og algerlega heiðarlegur trúboðsandi hans fyllti fólk út um allt land og allan heim andargift. Ég held að Billy hafi ekki eingöngu snert hjarta kristinna, heldur fólks af öllum trúarbrögðum, því hann var svo góður maður. Ég bjó að þeim forréttindum að hann var persónulegur vinur minn, hann leiðbeindi mörgum barna minna, þar á meðal fyrrum forseta Bandaríkjanna. Við munum sakna góðs vinar okkar ávalt.“

  • Justin Welby, erkibiskupinn af Canterbury:

„Skuld alheimskirkjunnar við hann er ómetanlegt og ómælanleg. Sjálfur er ég sérstaklega þakklátur Guði fyrir líf og þjónustu þessa góða og trúa þjóns fagnaðarerindisins; með fordæmi sínu skoraði hann á alla kristna að herma eftir lífi sínu og gjörðum. Hann var sá sem mætti forsetum og prestum, konungum og tónlistarmönnum, ríkum og fátækum, ungum og gömlum, augliti til auglits. En í dag mætir hann augliti Jesú Krists, frelsara sína og okkar. Það er fundur sem hann hefur verið að hlakka til allt sitt líf.“

Sonur hans, William Franklin Graham III tók við trúboði hans, en hann kom meðal annars hingað til lands á Hátíð vonar árið 2013 þar sem hann talaði ásamt Biskup Íslands og fleiri frammámönnum í kristnu samfélagi á Íslandi. Hér má sjá myndaröð úr lífi Billy Graham frá St. Louis Post-Dispatch.