Dæmi um einkanúmer sem hefur verið hafnað í gegnum tíðina eru KILLER, FÍKNÓ, BAKKUS, DEVIL, SATAN og Ó GUÐ. Þetta kemur fram hjá Samgöngustofu. Áletrun einkamerkis má hvorki brjóta í bága við íslenskt málfar né vera líklegt til að valda hneykslun eða ruglingi.

Þórhildur Elínardóttir.
Þórhildur Elínardóttir.

Þórhildur Elínardóttir, upplýsingafulltrúi Samgöngustofu, segir að oft séu skemmtilegar sögur á bak við númerin: „Það eru til alls konar skemmtileg númer, sérstakega „gömlu" númerin eins og R 1234 sem fólk virðist oft kaupa af tilfinningaástæðu eða gefur í gjöf. Til dæmis hafa slík merki oft verið keypt í gjafir handa fullorðnu fólki. Þá fylgir oft saga um að merkið hafi verið á fyrsta bíl viðkomandi og verið lengi í fjölskyldunni en það er þá frá þeim tíma þegar menn áttu númer og það flakkaði milli bíla."

Þórhildur segir að fólk velji líka númer af öðrum ástæðum: „Þá hefur fólk verið að kaupa happatölur, ákveðnar mikilvægar dagsetningar í lífi fólks, heiti á hljómsveitum, söngvurum, bílaheitum/framleiðanda og íþróttafélögum sem eru í uppáhaldi.  Ungt fólk virðist frekar kaupa merki sem eru orðagrín þar sem tölustafir eru i bland við bókstafi eða gælunafn, t.d.: HR1SV1, HKARL, THXDAD, MOMP8D, SMILE, SINGLE. Svo eru „bíladellu" karlar með merki á borð við CHEVY69, T BIRD, T 69 og álíka og virðast þá vilja týpu og árgerð til að merkja bílana með. Þarna erum við að tala um menn sem eiga fornbíla eða mjög sérstaka bíla að eigin mati."

Sama gjald hefur frá upphafi verið fyrir einkanúmer eða 25.000 kr. en upphæðin er lögbundin í 64. gr. a umferðarlaga.

Einkanúmerum hefur fækkað verulega síðan árið 2007. Þá voru þau 1041 en voru 556 árið 2013.