Ríkislögreglustjóri hefur auglýst eftir lögreglumanni sem á að hafa það hlutverk að vera bílstjóri innanríkisráðherra. Bílstjórinn mun því jafnframt sinna hlutverki öryggisvarðar ráðherra. Ráðning er í samræmi við 8. grein nýrrar reglugerðar um bifreiðamál ríkisins sem samþykkt var nýlega. Morgunblaðið segir breytinguna fela í sér að öryggiskröfur eru færðar til nútímans, þar á meðal öryggisbúnaður í bílum ráðherra. Blaðið öryggismál ráðuneytanna hafa almennt verið til skoðunar og eru breytingar á reglugerð um bifreiðamál tengdar því.

Viðskiptablaðið rifjaði upp í mars í fyrra að öryggisgæsla hafi verið aukin til muna við Stjórnarráðshúsið í kringum bankahrunið í október árið 2008 en þá gættu þess bæði lögreglumenn og gættu sérstakir öryggisverðir ráðherra. Í fyrravor herti svo Ríkislögreglustjóri eftirlit með ráðherrunum Steingrími J. Sigfússyni og Ögmundi Jónassyni og var gæsla við heimili þeirra allan sólarhringinn eftir að ráðist var á heimili þess síðarnefnda.

Þetta mun hins vegar vera fyrsta skiptið sem ráða þarf bílstjóra eftir að nýja reglugerðin tók gildi, að sögn Morgunblaðsins. Lögreglumaðurinn þarf að undirgangast sérstaka þjálfun vegna starfsins en verður starfsmaður innanríkisráðuneytisins eins og venja er með bílstjóra. Ekki þarf að skipta út öllum bílstjórum ráðuneytanna.