Dómstóll í San Francsico, Kaliforníu, hefur úrskurðað að bílstjórar sem keyra fyrir leigubílafyrirtækið Uber séu starfsmenn fyrirtækisins en ekki sjálfstæðir verktakar.

Uber er gríðarlega vinsælt fyrirbæri í Bandaríkjunum, þar sem fólk getur pantað sér leigubíl frá fyrirtækinu með snjallsíma og greitt í gegnum símann. Uber hefur þó mátt þola hundruðir lögsókna frá stofnun, bæði vegna lögmætis fyrirtækisins og einnig vegna sambandsins við bílstjóra sína.

Ef bílstjórar Uber eru starfsmenn en ekki verktakar mun kostnaður Uber aukast gríðarlega. Þá þarf fyrirtækið að greiða m.a. lífeyri, atvinnuleysistryggingar og ýmist annað. Gæti það haft veruleg áhrif á virði fyrirtækisins, sem nú er metið á yfir 40 milljarða Bandaríkjadala.

Uber hefur ávallt haldið því fram að bílstjórar sínir séu sjálfstæðir verktakar og að fyrirtækið sjálft bjóði einungis upp á tæknina til að gera þetta að veruleika. Dómstóllinn var hins vegar ósammála og sagði að Uber hefði fulla stjórn á bílstjórum sínum; þeir réðu yfir tölvukerfinu, fylgdust með einkunnum bílstjóra og neituðu þeim aðgangi að kerfinu ef einkunn þeirra færi undir 4,6 stjörnur. Þá stýrir Uber einnig verðinu.

Úrskurður þessi nær þó einungis til Kaliforníufylkis, sem er í raun heimavöllur Uber og einn af þeirra stærstu mörkuðum. Hins vegar gæti hann veit fordæmi í öðrum fylkjum og jafnvel öðrum löndum.