Ómar Benediktsson framkvæmdastjóri Farice, sem rekur fjarskiptakerfi landsins við útlönd og á tvo gagnasæstrengi frá Íslandi til Evrópu, hyggst hætta hjá félaginu, á næstu vikum eftir átta ára starf hjá því. Leit að nýjum framkvæmdastjóra stendur yfir. Hann er jafnframt að hætta í stjórnum Icelandair Group og Landsnets þessa dagana.

„Rekstur Farice er orðinn sjálfbær, og ég er búinn að vera hérna mun lengur en ég ætlaði mér. Nú þegar búið er að endurfjármagna fyrirtækið, og eyða óvissunni um eignarhald, tel ég mig geta gengið sáttur frá borði," segir Ómar sem hyggst snúa sér að eigin viðskiptum auk þess að sinna fjölskyldunni og áhugamálum þegar hann hættir.

Auk Farice-1 strengsins sem liggur frá Seyðisfirði bæði til og framhjá Færeyjum og niður til Skotlands, og Danice strengsins sem liggur um 2.300 kílómetra leið frá Landeyjasandi til Danmerkur, liggur einn gagnasæstrengur til landsins til viðbótar.

„Það er Greenland Connect strengurinn sem Grænlendingar eiga, en burðargeta hans er minni, auk þess sem þetta er gríðarlega langur strengur sem reynst hefur óáreiðanlegur. Til að mynda var hann bilaður í átta mánuði í fyrra. Við höfum stundum sagt að eiginlega þyrftu okkar strengir að bila, svo þjóðin áttaði sig á mikilvægi fyrirtækisins, en við höfum verið með 100% uppitíma á kerfinu okkar í mörg ár," segir Ómar.

„Með nýjum búnaði sem við settum á okkar strengi fyrir nokkrum árum síðan margfölduðum við flutningsgetuna, en miðað við upphaflega hönnun væri Farice-1 strengurinn fullnýttur í dag. Síðustu ár hefur gagnanotkunin farið algerlega á flug, sérstaklega með tilkomu gagnaveranna sem er eflaust mun meiri en fólk áttar sig á, enda nam raforkusala til þeirra sennilega í kringum fimm milljarða króna í fyrra.

Símafélögin hafa vissulega verið óhress með að við höfum verið með tvær verðskrár með öðru og lægra verði fyrir viðskiptavini gagnaveranna, en annars hefði aldrei orðið af þessum gagnaverum. Mikil uppbygging þeirra hefur leitt til lækkunar á einingaverði til símafélaganna á sama tíma og eftirspurnin eftir gagnamagninu hjá þeim hefur aukist mikið og eru þau að fá miklu meira gagnamagn í dag fyrir sömu upphæð og áður."

Nýr strengur gæti komið í gagnið 2022

Ómar segir að miðað við aukið mikilvægi tenginga við útlönd sé mikilvægt að auka öryggi í fjarskiptum auk þess sem núverandi þróun gagnanotkunar kalli á nýjan sæstreng á næstu árum. „Við erum að verða sífellt háðari alþjóðlegum samskiptum og við yrðum ekki í góðum málum ef Ísland yrði sambandslaust. Hingað til hefur þetta gengið gríðarlega vel, en það hlýtur að vera einhver heppni í þessu líka þrátt fyrir frábæra tæknimenn Farice. Miðað við tilteknar forsendur er almennt talið að með tvo sæstrengi sé uppitíminn 99,96%, en með þriðja strengnum myndum við fara í 99,9993% uppitíma," segir Ómar.

„Farice sjálft hefur enga burði til að standa undir fjárfestingu á nýjum streng, en ef ríkið setur um 20% af upphæðinni inn á fjármálaáætlun á næsta ári, og 80% á þarnæsta ári, þá væri hægt að taka hann í notkun í árslok 2022. Við erum að byrja botnrannsóknir núna í sumar, og þó að ákveðið hafi verið að taka það skref fólst ekki í því nein ákvörðun um að leggja streng að sinni. Þannig getum við fengið betri hugmynd um lagnaleið og betri hugmynd um hvað hann muni kosta.

Það eru tveir staðir á Írlandi og einn á N-Írlandi sem eru til skoðunar um hvar hann kæmi í land, en frá Dublin eru svo mjög góðar tengingar út um allan heim. Með tengingu í gegnum Írland styttist ferðatíminn til London úr 18,5 millisekúndum í 15 millisekúndur. Innviðir eru mikið til umræðu og tel ég tækifæri til hagræðingar í fjarskiptainnviðum innanlands og um leið bæta fjarskiptakerfið á landsbyggðinni. Farice er lítil rekstrareining og gæti mögulega verið hornsteinn í slíku samstarfi eða sameiningu."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .