Hagnaður íþróttavöruframleiðandans Adidas jókst um 18% á síðasta ári og var um 671 milljón evra. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að ástæðan sé fyrst og fremst aukin sala í Austur-Evrópu og Kína sem leiði eftirspurnina. Fyrirtækið spáir auknum hagnaði á næsta ári og eru vonir bundnar við að Ólympíuleikarnir í London auki eftirspurn eftir vörum fyrirtækisins. Adidas er næststærsti íþróttavöruframleiðandi heims en íþróttavörurisinn Nike trónir á toppnum.