„Ég bind vonir við að virðisaukaskattskerfið í heild verði endurskoðað,“ segir Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvegaráðherra. Fram kom í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag, að útfærsla á hækkun virðisaukaskattsins sé í skoðun í nefnd á vegum Alþingis og eigi ferðaþjónustan sæti í nefndinni. Hann vill að erlendir ferðamenn skilji meira eftir sig í hagkerfinu.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, vakti máls á því í óundirbúnum fyrirspurnartíma að varfærnar áætlanir um áhrif af hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustu séu neikvæðar. M.a. muni erlendum ferðamönnum fækka og tekjur af þeim dragast saman. Af þeim sökum spurði hann Steingrím hvort ekki komi til greina að endurskoða málið.

Steingrímur svaraði því til að tilefni sé til að fara yfir skattamál ferðaþjónustunnar, sér fyndist t.d. ekki sterkt rök fyrir því að skattleggja ferðaþjónustu með sama hætti og mat, sem ber 7% virðisaukaskatt.

„Framtíðarhorfur eru bjartar. Menn telja að Ísland sé komið með slíka stöðu að við eigum ekki að þurfa að kvíða framhaldinu. Við eigum ekki bara að horfa til þess að hrúga hingað ferðamönnum heldur líka því að þeir skilji eitthvað eftir í hagkerfinu,“ sagði hann.