„Á þessu fiskveiðiári miðað við þau þorskígildi sem við höfum núna og þau veiðigjöld sem verið er að tala um þá þurfum við að borga á milli 800 til 900 milljóna króna. Þegar lögin verða komin að fullu til framkvæmda þá þurfum við að borga á milli 1,3 til 1,5 milljarða í veiðigjald að óbreyttu - og það án viðbragða,“ segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum.

Í morgun var greint frá þeirri ákvörðun stjórnar Vinnslustöðvarinnar að segja upp 41 starfsmanna, þar af allri áhöfn togarans Gandí, og reyna að selja skipið að lokinini makrílvertíðinni. Gripið er til aðgerðanna vegna rúmlega helmings skerðingar á aflaheimildum í makríl fyrir skip útgerðarinnar á yfirstandandi fiskveiðiári, skerðingu aflaheimilda Vinnslustöðvarinnar upp á 700 þorskígildistonn á næsta fiskveiðiári og stórhækkuðu veiðigjaldi í nýsamþykktum lögum frá Alþingi.

Þetta jafngildir því að fyrirtækið segi upp 13% starfsmanna. Vinnslustöðin rekur 10 skip.

Sigurgeir Brynjar, betur þekktur sem Binni í Vinnslustöðinni, á auk þess að endurskoða reksturinn og leita leiða til að hagræða frekari í rekstrinum.

Eigið Vinnslustöðvarinnar gæti gufað upp

Binni segir í samtali við Viðskiptablaðið veiðigjöldin taka bæði af framlegð veiða og vinnslu og muni það reynast útgerðinni þungt í skauti.

„Þetta slátrar útgerð. Veiðigjöldin eru af þeim fjárhæðum að það borgar sig ekki lengur að veiða tegundir eins og grálúðu og gulllax," segir hann og rifjar upp að í álitsgerð Ragnars H. Hall hrl, sem hann vann fyrir Vinnslustöðina af áhrifum veiðigjalda á fyrirtækið með virðisrýrnun aflaheimilda, minnkun á framlegð og áhrif á virði og eiginfjárstöðu þess, komi fram að eigið fé Vinnslustöðvarinnar muni nánast gufa upp.

Hann bendir á að aðeins sé gefinn afsláttur af veiðileyfagjaldinu fyrsta árið. Eftir það komi það að fullu til framkvæmda.

„Það voru engar breytingar gerðar á veiðileyfagjaldinu. Því var einfaldlega logið að fólki,“ segir Binni.