Stafrænn sýningarbúnaður ásamt nýju hljóðkerfi var tekinn í notkun í sal 1 í Bíó Paradís um síðustu helgi. Í dag eru því allir salirnir komnir með stafrænan sýningarbúnað. Í tilefni af þessum tímamótum býður Bíó Paradísvelunnurum og fjölmiðlum til fagnaðar í dag klukkan 17.00 þar sem sýnd verða brot úr dagskrá haustsins.

„Þetta er ótrúlega mikill munur á hljóði og mynd og nú er Bíó Paradís orðið öflugara en nokkru sinni fyrr, hvað varðar gæði og fjölbreytni í dagskrárgerð,“ segir Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíó Paradísar.

Hún lofar pökkuðum vetri af stórkostlegum verðlaunamyndum sem þau í Bíó Paradís bíða spennt eftir að sýna.

„Það hefur sýnt sig að fólk hefur áhuga á alþjóðlegum gæðamyndum,“ segir Hrönn og nefnir sem dæmi að það hafi verið stappað á sýningum á Paradís: Ást, en henni hefur verið einstaklega vel tekið í Bíó Paradís.