Hinar íslensku Bioeffect vörur unnu á dögunum til virtra verðlauna hjá Marie Claire tískutímaritinu fyrir vöru sína 30 Day Treatment. Verðlaunin heita „Prix d'excellence de la beauté" og þykja ein þau eftirsóknarverðustu í snyrtivörugeiranum en þau hafa verið afhent undanfarin 31 ár. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

„Við erum ákaflega ánægð og stolt af að vinna til þessara verðlauna sem framúrskarandi húðvara hjá hinu virta franska tímariti Marie Claire. Þessi verðlaun „Prix d'excellence de la beauté" eru yfirleitt kölluð Óskarsverðlaunin innan snyrtivörugeirans en varan sem hlaut verðlaunin heitir Bioeffect 30 Day Treatment. Ritstjórar og blaðamenn hjá fremstu tískutímaritum heims tilnefna og dæma sjálfir snyrtivörurnar sem þeim finnst bestar, en engum framleiðendum er boðið að senda sínar snyrtivörur í keppnina.

Þess vegna er þetta enn meiri heiður að hafa unnið til jafn mikilvægra verðlauna hjá helstu fagaðilum stærstu og flottustu tískutímarita heims sem einnig fjalla mjög mikið um snyrtivörur. Í þau 31 ár sem verðlaunin hafa verið veitt hafa þau yfirleitt farið til þekktustu snyrtivörufyrirtækja heims en nú kemur lítið snyrtivörufyrirtæki frá Íslandi og vinnur sem er einstakt og alveg frábært" er haft eftir Hildi Ársælsdóttur markaðsstjóra Bioeffect, sem er dótturfyrirtæki ORF Líftækni.

Hildur segir að Bioeffect 30 Day Treatment hafi vakið mikla athygli síðan varan kom á markað en hún samanstendur af þremur 5ml flöskum sem innihalda hver um sig 3 vaxtarþætti sem vinna sameiginlega að því að auka kollagen- og elastínbúskap húðarinnar og þannig auka þéttleika og teygjanleika hennar sem dregur umtalsvert úr hrukkumyndun.