Mikil eftirvænting var í Bandaríkjunum á laugardagsmorgun þegar Apple hóf sölu á IPad, nýjustu afurð sinni. Ekki mynduðust raðir alls staðar að sögn Wall Street Journal og þar sem raðir mynduðust voru þær fljótar að þynnast út. Til viðbótar þá seldust tækin ekki upp í búðum eins og margir höfðu reiknað með.

Samkvæmt WSJ hafa stjórnendur Apple neitað að veita upplýsingar um sölu helgarinnar. Þeir vilja ekki heldur upplýsa um spár sínar fyrir framtíðina og hvað þeir vonast til að selja margar IPad tölvur, sem sumir segja að boði nýja byltingu í notkun tölva. Þeir sem WSJ töluðu við sögðu að það væri ekki endilega neikvætt að IPad seldist ekki upp þessa fyrstu söluhelgi. Það hefði verið lokað víða hjá Apple á sunnudaginn vegna páska og eins sýndi það að framleiðsla og dreifing á nýjum tækjum væri meira í takt við væntingar á markaðnum. Þar af leiðandi fæli það í sér betri þjónustu fyrir neytandann, sem ætlar að nálgast tæki á þessum fyrstu dögum.

Greiningaraðilar WSJ virðast mjög bjartsýnir á þróunina hjá Apple næstu árin þótt spárnar séu æði misjafnar. Umræðan undanfarnar vikur hefur verið fyrirtækinu hliðholl. Einn greinandinn sem WSJ talaði við reiknaði með að 600 til 700 þúsund tæki myndu seljast fyrstu dagana. Það var eftir að hann tvöfaldaði upphaflegu spá sína. Einnig spáir hann að heildarsalan árið 2010 verði 5,5 milljón tæki en ekki 2,8 milljónir.