Forsætisráðuneytið svaraði í gærkvöldi óskum Birgis Ármannssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins um upplýsingar vegna samskipta ráðuneytisins við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í tengslum við seðlabankafrumvarpið.

Í tilkynningu frá Birgi, sem send var fjölmiðlum í dag kemur fram að svarið byggi að mestu leyti á upplýsingum sem þegar hafa komið fram varðandi þessi samskipti en um leið sé ósk um aðgang að upphaflegum athugasemdum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins synjað með formlegum hætti. Það sé gert á grundvelli undaþáguákvæðis upplýsingalaga, sem heimilar takmarkanir á aðgangi að upplýsingum um samskipti við fjölþjóðlegar stofnanir þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjist.

„Ég get ekki fallist á að þetta undanþáguákvæði eigi við um þessi gögn þar sem ekki verður séð að mikilvægir almannahagsmunir krefjist þess að þeim sé haldið leyndum,“ segir Birgir í tilkynningunni.

Tilkynning Birgis er svohljóðandi og er birt hér óbreytt:

Síðastliðinn föstudag, 13. febrúar 2009, sendi ég forsætisráðherra bréf þar sem ég óskaði eftir upplýsingum um samskipti forsætisráðuneytisins við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn vegna frumvarps til laga um Seðlabanka Íslands.

Í gærkvöldi barst mér svar ráðuneytisins og fylgir það þessari orðsendingu. Þakka ég ráðuneytinu fyrir að bregðast svo skjótt við bréfi mínu, en þess er þó að geta að ég hafði áður gert ítrekaðar tilraunir til að fá umræddar upplýsingar á vettvangi viðskiptanefndar Alþingis.

Í tilefni af bréfi ráðuneytisins vil ég greina frá því að ég hyggst óska svara frá forsætisráðuneytinu um það hvort þær upplýsingar sem fram koma í svarinu séu tæmandi. Í því sambandi vísa ég bréfs míns frá 13. febrúar og þeirra tölusettu atriða sem þar er að finna. Þannig er t.d. mikilvægt að fram komi með ótvíræðum hætti hvort um einhver önnur samskipti, munnleg eða skrifleg, hafi verið að ræða en þau sem tilgreind eru í svarinu og jafnframt hvort til eru einhverjar skráningar hjá ráðuneytinu varðandi þau samskipti sem spurt var um.

Varðandi synjun ráðuneytisins um aðgang að upphaflegum athugasemdum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins vil ég taka eftirfarandi fram: Undanþáguákvæði 2. tl. 6. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 felur í sér heimild stjórnvalds til að takmarka aðgang almennings að upplýsingum um samskipti við fjölþjóðastofnanir.

Slík heimild á þó aðeins við, sbr. 1. ml. 6. gr., þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast. Ég get með engu móti fallist á það mat ráðuneytisins að mikilvægir almannahagsmunir krefjist þess að leynd sé haldið yfir umræddum athugasemdum. Um er að ræða athugasemdir eða tæknilegar ábendingar sem varða lagafrumvarp sem er til meðferðar á Alþingi. Eðli málsins samkvæmt hljóta slíkar athugasemdir að eiga erindi við þingið miklu frekar en við ráðuneytið.

Vert er að vekja athygli á því að ráðuneytið óskaði eftir athugasemdunum eftir að frumvarpið var lagt fram á þingi og þær bárust eftir að 1. umræða um það hafði farið fram. Málið var þannig á þessum tíma  ótvírætt á forræði þingsins en ekki ráðuneytisins. Því er vandséð hvaða erindi athugasemdirnar áttu við ráðuneytið en ekki þingið.

Sú lögskýring fær ekki staðist að unnt sé að takmarka aðgang að öllum upplýsingum varðandi samskipti við fjölþjóðlegar stofnanir á grundvelli 2. tl. 6. gr. upplýsingalaganna. Ljóst er að það verður að meta í hverju tilviki fyrir sig. Fyrirvari greinarinnar um mikilvæga almannahagsmuni væri merkingarlaus ef stjórnvald gæti alltaf borið fyrir sig að halda bæri tilteknum upplýsingum leyndum þar sem þær vörðuðu samskipti við fjölþjóðlegar stofnanir og mikilvægt væri að tryggja góð samskipti við þær.

Ráðuneytið vísar í svari sínu til fyrirvara Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um að farið verði með umræddar athugasemdir sem trúnaðarmál. Í því sambandi er rétt að benda á athugasemdir í greinargerð með 3. gr. frumvarps til upplýsingalaga. Þar kemur fram að stjórnvald geti ekki heitið þeim sem upplýsingar gefur trúnaði. Slíkt verði ekki gert nema ótvírætt sé að upplýsingarnar falli undir eitthvert af undanþáguákvæðum frumvarpsins, þ.m.t. 6. gr.

Til þess að hægt sé að beita undanþáguheimildinni sem þar er að finna þurfa tvö skilyrði að vera til staðar, eins og áður er getið. Annars vegar þurfa  upplýsingarnar að varða samskipti við fjölþjóðlega stofnun og hins vegar að mikilvægir almannahagsmunir krefjist þess að aðgangur að þessum tilteknu upplýsingum sé takmarkaður. Bæði þessi skilyrði þurfa ótvírætt að vera fyrir hendi.

Varðandi túlkun á 6. gr. upplýsinganna verður líka að hafa í huga, að um er að ræða undantekningarákvæði sem samkvæmt almennum lögskýringarreglum verður að skýra þröngt. Almenna reglan er sú, eins og birtist í 3. gr. laganna, að stjórnvöldum sé skylt að veita almenningi aðgang að gögnum.

Í ljósi framangreindra sjónarmiða tel ég rétt að bera synjun forsætisráðuneytisins um aðgang að upphaflegum athugasemdum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sbr. 14. gr. l. 50/1996. Tel ég mikilvægt að fá úr því skorið hið fyrsta hvort það mat ráðuneytisins, sem fram kemur í svari þess frá 16. febrúar, byggist á lögmætum forsendum.

Virðingarfyllst,

Birgir Ármannsson.