Birgir Ármannsson alþingismaður segir að forseti Alþingis og ríkisstjórn hafi tafið afgreiðslu Helguvíkurmálsins síðustu daga, en málið var afgreitt úr nefnd í vikunni eins og vb.is greindi frá.

Birgir segir að í þrjá daga hafi málið verið sett aftarlega á dagskrána en sjálfstæðismenn hafi hvað eftir annað stungið upp á því við forseta, bæði á lokuðum fundum og í þingsal, að málið yrði tekið fram fyrir stjórnarskrármálið og afgreitt hið fyrsta.

Þá segir hann að þingsályktun um loftslagsmál hafi ekki enn verið afgreidd úr nefnd þrátt fyrir skýran meirihluta í nefnd og á þingi.

Segir að Helguvíkurmálið hefði átt að setja í forgang

Birgir segir að Helguvíkurmálið sé afar mikilvægt vegna þess að þar sé um að ræða verkefni sem mjög fljótlega fari að skila fjölda starfa, auk þess að vera þjóðhagslega hagkvæmt til lengri tíma litið. Hann segir þetta dæmigert mál sem þingið ætti að setja í forgang og klára. Forseti Alþingis og ráðherrar hafi hins vegar þverskallast við að taka málið fram fyrir, enda hugsi stjórnarliðar og framsóknarmenn aðeins um stjórnarskrárbreytinguna þessa dagana.

Þingsályktunartillaga um loftslagsmál enn í umhverfisnefnd

Birgir segir einnig að frá því á miðvikudag hafi fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í umhverfisnefnd þingsins reynt að fá fund í nefndinni til að afgreiða út úr henni þingsályktunartillögu um loftslagsmál. Meiri hluti nefndarmanna standi að málinu og enginn vafi sé á því að það njóti meirihlutastuðnings á þingi.

Hann segir að reglulegur fundur hafi fallið niður á miðvikudagsmorgun og þá hafi nefndarmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks þegar hafist handa við að fá fund boðaðan til að hraða málinu, en saman hafi þeir meirihluta í nefndinni. Varaformaður nefndarinnar, Atli Gíslason, sem sé starfandi formaður í forföllum Helga Hjörvar, hafi í engu sinnt málinu en málið sé í andstöðu við stefnu flokks hans, Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs.

Umhverfisnefnd fundar á mánudag

Birgir segir einnig að Árni Mathiesen hafi í þrígang vakið athygli á þessu í þinginu í dag til að þrýsta á um fund og nýjustu fréttir séu að hann verði á mánudagsmorgun. Birgir segir andstæðinga málsins hafa reynt að þæfa það með því að forðast í lengstu lög að halda fund í nefndinni, þótt skýrt sé í þingsköpum að nefndarmennirnir geti krafist nefndarfundar svo fljótt sem auðið sé.

Íslenska ákvæðið haldi gildi sínu

36 þingmenn eru flutningsmenn umræddrar þingsályktunartillögu, en í henni segir að Alþingi feli ríkisstjórninni að gæta ýtrustu hagsmuna Íslands í samningaviðræðum sem nú fara fram á vegum rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og stefnst sé að því að ljúka á 15. aðildarríkjaþingi samningsins í Kaupmannahöfn í desember nk. Ríkisstjórnin skuli sérstaklega tryggja að „íslenska ákvæðið“ svokallaða haldi gildi sínu.

Tenglar:

Heimild til samninga um álver í Helguvík

Tillaga til þingsályktunar um hagsmuni Íslands í loftslagsmálum