Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir að svo miklar efnisbreytingar hafi verið gerðar á frumvarpinu um Icesave-ríkisábyrgðina að það kalli á nýjar viðræður við Breta og Hollendinga.

„Samningarnir sjálfir frá 5. júní gera ráð fyrir fyrirvaralausri og óskilyrtri ríkisábyrgð," segir hann í samtali við Viðskiptablaðið.

„Þarna er augljóslega um svo mikla efnisbreytingu að ræða að það kallar á nýjar viðræður. Framhjá því verður ekki komist. Í raun er um að ræða nýtt samningstilboð."

Þriðja og síðasta umræða fer nú fram um Icesave-frumvarpið á Alþingi.

Eins og kunnugt er hafa fjölmargir fyrirvarar og breytingar verið lagðar til við frumvarpið frá fyrstu umræðu. Nú liggja til að mynda fyrir tillögur frá meirihluta fjárlaganefndar um að það skilyrði verði fyrir veitingu ríkisábyrgðarinnar að bresk og hollensk stjórnvöld þurfi að samþykkja fyrirvara Alþingis.

Umræðan á þingi hófst í morgum og eru tólf þingmenn á mælendaskrá þegar þetta er skrifað. Stefnt er að því að lokaatkvæðagreiðslan um Icesave fari fram á Alþingi fyrir hádegi á morgun.