Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir Össur Skarphéðinsson, utanríkis- og iðnaðarráðherra fara með ósannindi með fullyrðingum um að þingmenn Sjálfstæðiflokksins hafi reynt, með löngum ræðuhöldum um stjórnarskrármál, að tefja frumvörp frá ríkisstjórninni sem snúi að heimilum og fyrirtækjum í landinu.

Þetta segir Birgir í grein á fréttaskýringavefnum amx.is í dag.

Birgir segir að reynt hafi verið að gera þátttöku sjálfstæðismanna í umræðum um stjórnarskrármál tortryggilega. Bæði þingmenn stjórnarflokkanna og einhverjir fjölmiðlar hafi reynt að stilla málum upp með þeim hætti að það væri málþóf að þingmenn flokksins sættu sig ekki við að viðamiklar breytingar á stjórnarskránni rynnu í gegnum þingið umræðulítið eða umræðulaust.

„Lítill áhugi hefur verið á málefnalegum sjónarmiðum um frumvarpið, aðdraganda þess og efni,“ segir Birgir.

„Þess í stað hefur verið reynt að drepa málum á dreif með ásökunum um málþóf.“

Þá segir Birgir að sá sem lengst hafi gengið í ásökunum sínum í garð sjálfstæðismanna sé Össur Skarphéðinsson. Hann hafi hvað eftir annað veist að þingmönnum flokksins í bloggfærslum sínum, ekki síst á þeim forsendum að með málþófi um stjórnarskrármál væru sjálfstæðismenn að tefja framgang ýmissa mikilvægra mála hans og annarra ráðherra ríkisstjórnarinnar.

„Ásakanir hans í þeim efnum eiga ekki við nein rök að styðjast, enda virðast hann leggja meira upp úr skemmtigildi en sannleiksgildi í skrifum sínum,“ segir Birgir.

„Óhætt er að segja að ráðherrann skaut sig illa í fótinn í gærkvöldi með fullyrðingum af þessu tagi. Þar nefnir hann til sögunnar nokkur frumvörp, sem hann fullyrðir að Sjálfstæðisflokkurinn sé að tefja fyrir með löngum ræðuhöldum um stjórnarskrármál,“ segir Birgir.

Sjá nánar grein Birgis á amx.is