Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir að enn eigi eftir að leggja fram gögn í Icesave málinu. Birgir fór þess á leit við fjármálaráðherra á Alþingi í dag að öll gögn yrðu lögð fram í málinu.

Þetta kom fram í umræðum um á Alþingi fyrir skömmu en þar fer nú fram umræða um frumvarp fjármálaráðherra um ríkisábyrgð á lántöku Tryggingasjóðs innistæðueigenda.

Nú þegar hefur einhver hluti gagnanna verið lagður fram og birtur á vefnum island.is. Þá hafur hluti gagnanna verið afhentur þingmönnum og gefst þeim kostur á að skoða þau bak við luktar dyr á Alþingi en á þeim gögnum er enn bundinn trúnaður.

Í umræðum um málið í gærkvöldi spurði Birgir fjármálaráðherra hvort enn væru til gögn sem ekki væru komin fram. Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra sagði þá að enn væru til gögn í ráðuneytunum sem ekki hefðu verið birt.

Birgir sagði að nauðsynlegt væri að úr því yrði bætt. Þannig mætti útbúa lista yfir öll gögn er varðar málið þannig að þingmenn geti þá kallað eftir þeim en málið verður rætt í minnst þremur þingnefndum á Alþingi næstu daga.