Þrír sjálfstæðir bankastjórar eru þegar í Seðlabankanum sem taka ákvarðanir á eigin forsendum, sagði Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, í umræðum á Alþingi í dag um frumvarp forsætisráðherra um breytingar á lögum um Seðlabankann.

Birgir sagði að fagleg rök skorti fyrir fyrirhuguðum breytingum á skipulagi bankans.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra mælti fyrir frumvarpinu í morgun. Meginmarkmið þess er að leggja niður bankastjórn Seðlabanka Íslands og þar með embætti bankastjóranna þriggja sem þar nú sitja. Ráða á einn bankastjóra á faglegum forsendum, segir í frumvarpinu, að undangenginni auglýsingu. Þá á samkvæmt frumvarpinu að koma á sérstakri peningastefnunefnd.

Jóhanna sagði í lok framsöguræðu sinnar um frumvapið að hún vonaðist til þess að það fengi málefnalega og hraða umfjöllun á þinginu. „Hver dagur er dýrmætur nú þegar svo mikið veltur á að okkur takist að endurreisa trúverðugleika við þessa mikilvægu stofnun sem Seðlabanki Íslands er gagnvart alþjóðasamfélaginu sem og íslensku samfélagi öllu."

Sjálfstæðismenn gagnrýna bréf Jóhönnu til Davíðs

Umræður um frumvarpið standa nú yfir og eru fjórtán þingmenn á mælendaskrá þegar þetta er skrifað. Birgir Ármannsson og Pétur H. Blöndal, þingmenn Sjálfstæðisflokks, gagnrýndu meðal annars bréf forsætisráðherra til Seðlabankastjóra þar sem greint var frá breytingunum og óskað var eftir því að þeir færu sjálfviljugir frá.

Pétur rifjaði m.a. upp ræðu Jóhönnu frá árinu 2001 þegar núgildandi lög voru til umræðu á þinginu. Þar hefði hún fagnað auknu sjálfstæði bankans. Hann spurði hvort það bæri vott um sjálfstæði bankans ef ráðherra sendi bankastjóra hans bréf og óskað eftir því að hann segði af sér. Hann sagði jafnframt að í bréfinu hefði falist hótun.

Því vísaði Jóhanna á bug.

Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingar og fyrrverandi viðskiptaráðherra, sagði að málið snerist ekki um persónur heldur að endurreisa traust á lykilstofnunum í samfélaginu.