Ljóst er að tillögur ríkisstjórnarinnar í skattamálum munu leiða til stóraukinna álagna bæði á almenning og atvinnulíf. Skattahækkanirnar koma bæði fram í beinum sköttum og óbeinum.

Þetta segir Birgir Ármannson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í grein á vef AMX en Birgir segir jafnframt að lítilsháttar tekjuskattslækkun á tekjulægstu hópana hverfi eins og dögg fyrir sólu vegna hækkunar óbeinna skatta eins og virðisaukaskatts og vörugjalda.

„Fyrir þorra launafólks verður um að ræða umtalsvert hærri skatta á báðum vígstöðvum,“ segir Birgir.

„Fyrirtækin í landinu munu einnig verða fyrir verulegum skattahækkunum. Tryggingagjald verður til dæmis hækkað verulega, tekjuskattur lögaðila hækkar og teknir verða upp nýir orku-, auðlinda- og umhverfisskattar. Fleiri skattahækkanir eru í pípunum samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar en útfærsla þeirra liggur ekki fyrir.“   Birgir segir hækkun skatta á heimilin og fyrirtækin í landinu draga úr getu þeirra til að takast á við stöðu, sem þegar er mjög erfið. Stór hluti íslenskra fyrirtækja berjist í bökkum og heimilin berjist við að mæta stóraukinni skuldabyrði á sama tíma og tekjur fara lækkandi.

„Við þessar aðstæður geta skattahækkanir ekki haft aðrar afleiðingar en að dýpka kreppuna,“ segir Birgir.

„Þær valda því líka að efnahagslífið verður lengur að taka við sér og seinka þannig batanum sem allir hafa vonast til að verði einhvern tímann á næstu misserum. Ráð íslenskra stjórnvalda til að koma efnahagslífinu í gang að nýju eru skattahækkanir á sama tíma og ríkisstjórnir í nágrannalöndunum reyna að ná efnahagslífi sínu upp úr lægðinni með því að lækka skatta. Þær reyna að örva efnahagslífið en stjórnvöld hér á landi ætla sér að letja það.“

Sjá pistil Birgis í heild sinni hér.