Birgir Ármannsson, alþingismaður hefur ákveðið að leita eftir stuðningi reykvískra sjálfstæðismanna til áframhaldandi setu á Alþingi og óska eftir kjöri í 3. – 4. sæti í prófkjöri flokksins sem fram fer dagana 13. til 14. mars næstkomandi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Birgi en samkvæmt henni stefnir hann að því að skipa 2. sætið á framboðslista flokksins í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu í vor.

Birgir hefur setið á Alþingi frá því í kosningunum vorið 2003.

„Á þeim tíma hef ég fengið tækifæri til að sinna afar fjölbreyttum viðfangsefnum. Ég hef einkum beitt mér á sviði efnahags- og atvinnumála, málefna viðskiptalífsins, löggæslu og dómsmála, stjórnskipunarmála og utanríkismála,“ segir Birgir í tilkynningunni.

„Ég tel að framundan séu mörg brýn verkefni, bæði í þessum málaflokkum og á öðrum sviðum, og er áfram tilbúinn til að leggja mitt af mörkum til að hrinda grundvallarhugsjónum sjálfstæðismanna í framkvæmd.“

Hann segir að brýnustu verkefni stjórnmálanna um þessar mundir snúi að hagsmunum heimilanna og atvinnulífsins í landinu.

„Þar þurfa stjórnmálamenn úr öllum flokkum að taka höndum saman við að mæta  vandanum sem við er að stríða og grípa til virkra aðgerða til að auðvelda fjölskyldum og fyrirtækjum að komast í gegnum þá erfiðleika sem nú knýja dyra,“ segir Birgir.

„Samhliða þarf að leggja grunninn að endurreisn í efnahagsmálum. Sú endurreisn hlýtur að byggjast á athafnafrelsi og opnu hagkerfi, en um leið verður að tryggja að ábyrgð og agi ríki í viðskiptalífinu. Það er forsenda þess að okkur takist að endurvinna það traust, sem glatast hefur á undanförnum mánuðum.“

Birgir er fæddur í Reykjavík 12. júní 1968, lögfræðingur að mennt og var aðstoðarframkvæmdastjóri Verslunarráðs Íslands áður en hann var kjörinn á þing 2003. Hann er kvæntur Ragnhildi Lövdahl og eiga þau tvær dætur, Ernu sem er fædd 2003 og Helgu Kjaran sem er fædd 2005.