Gengið hefur verið frá sölu Domino’s á Íslandi til hóps fjárfesta sem samanstendur af Eyju fjárfestingarfélagi, Kristni ehf., Sjávarsýn ehf. og Lýsi ehf. Fyrri eigandi, Domino’s Pizza Group plc í Bretlandi, setti íslenskt rekstrarfélag Domino’s (Pizza Pizza ehf.) í formlegt söluferli á síðasta ári en samþykki Samkeppniseftirlitsins þarf fyrir sölunni. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Birgir Bieltvedt fer fyrir nýja eigendahópnum en hann hefur meira en aldarfjórðungs reynslu af rekstri Domino’s staða. Birgir hefur einnig nýverið tekið yfir rekstur Domino’s í Svíþjóð af Domino’s Pizza Group plc og þá er hann minnihlutaeigandi í Domino´s í Noregi.

Samhliða söluferlinu ákvað Birgir Örn Birgisson, framkvæmdastjóri Domino’s á Íslandi undanfarin ár, að hætta og snúa sér að öðrum verkefnum. Hann mun því láta af störfum þegar nýir eigendur hafa gengið frá ráðningu framkvæmdastjóra.

„Það hefur verið leiðarljós Domino’s Pizza Group plc í öllu þessu ferli að skilja vel við á íslenskum markaði. Við erum í skýjunum með að reksturinn fari í hendur aðila sem hefur svo rík tengsl við vörumerkið og að íslenskir neytendur muni áfram geta notið þess að fá sér ljúffenga Domino’s pizzu. Við viljum koma á framfæri kærum þökkum til starfsfólks okkar á Íslandi og óskum nýjum eigendum velgengni til framtíðar,“ segir í tilkynningu frá Domino's Pizza Group, fráfarandi eigendum Domino's á Íslandi.