Georg Haraldsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Sölu- og markaðssviðs Play. Í starfi sínu ber hann ábyrgð á tekjumótun félagsins, þar með talið tekjustýringu, sölu, dreifingu, markaðsmálum, almannatengslum og hliðartekjum, auk þjónustustefnu, þjónustumenningu, stafrænni þróun og hagnýtingu í upplýsingatækni. Georg tekur til starfa á næstu vikum. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Georg hefur viðamikla reynslu af alþjóðlegri sölustýringu og þróun rafrænna sölu- og markaðsdreifikerfa, en hann kemur til Play frá Íslandspósti þar sem hann gegndi hlutverki forstöðumanns Stafrænna lausna og upplýsingatæknisviðs félagsins. Birgir Jónsson, forstjóri Play, var áður forstjóri Íslandspósts og réði Georg til starfa þar árið 2019.

Á árunum 2014 til 2017 var Georg búsettur í Dubai, þar sem hann starfaði sem framkvæmdastjóri Marorku í Miðausturlöndum og leiddi þar uppbyggingu félagsins á fjarmörkuðum. Áður hefur Georg starfað við viðskiptastýringu hjá Iceland Travel og stafræna þróun og markaðssetningu hjá Völku, Iceland Express og Dohop.

„Að fá tækifæri til að marka viðskiptastefnu flugfélags frá grunni er ótrúlega skemmtilegt og krefjandi verkefni, sem ég er mjög spenntur fyrir. Ég hlakka mikið til að taka þátt í öllum þeim stóru verkefnum sem fram undan eru og taka þátt í að marka skýra viðskiptavinamiðaða stefnu sem skilar árangri til framtíðar. Auk þess felast mikil tækifæri fyrir flugfélög í því árferði sem skapast hefur í  kjölfar heimsfaraldurs, eldgoss og bólusetninga, sem leitt hefur af sér uppsafnaða ferðaþörf og ómetanlega landkynningu," segir Georg Haraldsson í tilkynningunni.

Birgir er gríðarlega ánægður að fá Georg inn í stjórnunarteymið. „Það er mikill hvalreki fyrir Play að fá Georg til liðs við framkvæmdastjórnina í þeirri uppbyggingu og stefnumörkun sem félagið stendur frammi fyrir. Georg þekkir vel viðskiptaumhverfi flugfélaga og ferðaiðnaðarins, og hvernig hægt er að nýta tæknina til að auka ánægju viðskiptavina og tryggja sölu og dreifingu flugfargjalda."

Georg er tölvunarfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og er einnig með meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum frá HR og IE Business School, einum virtasta viðskiptaháskóla Evrópu. Georg er kvæntur Hjördísi Jónsdóttir, verkefnastjóra og viðskiptafræðingi, og eiga þau fjögur börn. Georg er jafnframt sagður ástríðukokkur, skíðakappi, golfari og grjótharður KR-ingur.