Birgir Jónsson forstjóri Íslandspósts hefur ákveðið að láta af störfum hjá félaginu og hafa hann og stjórn félagsins gengið frá samkomulagi um starfslokin.  Birgir hóf störf hjá Póstinum í byrjun júní 2019 og hefur frá þeim tíma ásamt stjórn og nýju stjórnendateymi, stýrt félaginu í gegnum mikið og að því er segir í fréttatilkynningu farsælt umbreytingaferli.

Tekist hafi að treysta rekstrargrundvöll fyrirtækisins og skapa því sterkari stöðu til framtíðar. Þá hafi þjónusta Póstsins verið bætt og aukin. Framundan eru sögð áframhaldandi krefjandi og ný verkefni hjá Íslandspósti en Birgir mun gegna starfi forstjóra þar til eftirmaður hans hefur verið ráðinn.

„Stjórn Íslandspósts þakkar Birgi fyrir góð störf en margt hefur áunnist í rekstri Íslandspósts frá því hann tók við starfinu. Birgir hefur verið öflugur starfsmaður sem hefur leitt umbreytingaferli hjá fyrirtækinu, skapað góða liðsheild og starfsanda,“ segir Bjarni Jónsson stjórnarformaður Íslandspósts.

„Stjórn félagsins þakkar Birgi fyrir vel unnin störf og óskar honum velfarnaðar í framtíðinni. Framundan eru krefjandi verkefni í stefnumótun og við að bæta enn frekar þjónustu hjá Íslandspósti.“

Birgir Jónsson forstjóri Íslandspósts segir mikinn viðsnúning hafa orðið í rekstri Íslandspósts.

„Það hefur verið sannur heiður að fá að takast á við þetta krefjandi verkefni með þessum öfluga hópi starfsmanna um land allt,“ segir Birgir..

„Næstu skref hjá mér eru óráðin en ég fer frá borði fullur þakklætis fyrir að hafa fengið að taka þátt í þessu skemmtilega verkefni og ég hlakka mikið til að sjá Póstinn blómstra sem aldrei fyrr í höndunum á öllu því góða fólki sem þar starfar.“