Birgir Ísleifur Gunnasson, formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands, verður gestur Viðskiptaþáttarins á Útvarpi Sögu (99,4) í dag. Þrátt fyrir miklar og hraðar breytingar íslenska fjármálakerfisins á undanförnum árum og vaxandi ójafnvægi í þjóðarbúskapnum stendur kerfið traustum fótum. Þetta er niðurstaða Seðlabanka Íslands sem gaf í gær út greiningu sína á fjármálastöðugleika á Íslandi. Rætt verður við Birgi Ísleif um skýrsluna.

Bankinn segir það traust í þeim skilningi að það geti staðist áföll í efnahagslífi og á fjármálamörkuðum, miðlað lánsfé og greiðslum og dreift áhættu með viðhlítandi hætti.

"Vaxandi ójafnvægis hefur gætt í þjóðarbúskapnum undanfarið ár og birtist það í örum vexti eftirspurnar, aukinni verðbólgu, háu eignaverði og vaxandi viðskiptahalla sem nær hámarki í ár. Þessar aðstæður auka líkur á að reyni á fjármálakerfið þegar fram líða stundir," sagði Birgir Ísleifur Gunnarsson formaður bankastjórnar Seðlabankans þegar skýrslan var kynnt í gær. Hann bætti við að staða flestra heimila og margra fyrirtækja virðist þó hafa batnað til skamms tíma litið. "Hætta sem kann að steðja að fjármálakerfinu vegna efnahagsþróunarinnar felst einkum í þeim möguleika að fjármálaleg skilyrði þjóðarbúsins í heild versni og önnur ytri áföll dynji yfir á sama tíma og aðlögun eftir ofþenslu framkvæmdaáranna 2005 og 2006 á sér stað."

Birgir sagði ekki horfur á slíkri framvindu en hún gæti haft í för með sér umtalsverða lækkun eignaverðs. Meðal annars vegna þess hefur Seðlabankinn talið nauðsynlegt að hækka vexti tímanlega þannig að ekki verði þörf fyrir enn harkalegri aðferðir í lok framkvæmdaskeiðsins.

Í lok þáttarins verður rætt við Kristinn Einarsson, framkvæmdastjóra Blómavals, en félagið er að hætta starfsemi í Sigtúni eftir 35 ára veru þar.