Birgir Bieltvedt, ásamt fleiri fjárfestum hafa keypt 71% hlut í Domino‘s í Noregi af Domino‘s á Bretlandi. Á móti afhenda þeir breska Domino‘s hlut sinn í starfsemi Domino‘s í Svíþjóð.

Samhliða uppgjörinu greiðir Domino‘s Birgi 875 þúsund evrur, um 120 milljónir króna. 500 þúsund evrur koma til sem uppgjör á ráðgjafasamkomulagi sem Birgir gerði við Domino‘s sem kvað um að greiða Birgi 250 þúsund evrur á ári í ráðgjafagreiðslur, út maí 2022. Þá hafði Domino‘s á Bretlandi skuldbundið sig til að leggja fram milljón evrur í hlutafé fyrir Birgi yrði af stofnun dótturfélags breska Domino‘s í Finnlandi eða í Eystrasaltslöndunum sem Birgir hafði unnið að með félaginu. Domino‘s greiðir Birgi 375 þúsund evrur í reiðufé til að gera upp þann samning.

Fyrir viðskiptin áttu Birgir og aðrir minnihlutaeigendur 29% í Domino's í Noregi og Svíþjóð á móti 71% hlut Domino's á Bretlandi.

Breska Domino´s hefur til sölu starfsemina utan Bretlands, sem er á Íslandi, Noregi, Svíþjóð og Sviss. Domino´s rekur 55 pítsastaði í Noregi en viðvarandi taprekstur hefur verið á starfseminni, sem skilaði 6,6 milljóna punda tapi fyrir skatta árið 2018. Frekari fjármagn þurfi til að snúa við rekstrinum. Domino´s á Bretlandi mun greiða 7 milljónir punda til að styðja við reksturinn og fjármagna tapreksturinn þar til kaupin verða gengi í gegn. Þá mun Domino's á Bretlandi gefa eftir 30 milljóna punda kröfu gagnvart félaginu í Noregi.

Eyja fjárfestingafélag, undir stjórn Birgis og Pizza Holding AS, sem Eirki Bergh stýrir, áttu fyrir kaupin minnihluta í norsku starfsemi Domino‘s. Eyja kaupir 31% af hlut breska félagsins en Pizza Holding 59%.

Birgir kom að stofnun Domino‘s í Noregi árið 2014 ásamt fleiri fjárfestum. Íslendingarnir seldu meirihluta í starfseminni í Noregi, Svíþjóð og á Íslandi til breska Domino´s árið 2016. Þeir bættu við sig hlutum á árunum 2017 og 2019, en alls greiddi Domino‘s á Bretlandi um átta milljarða króna fyrir að kaupa Domino‘s á Íslandi að fullu og hlut í stöðunum í Noregi og Svíþjóð.