Eyja fjárfestingarfélag III ehf., í eigu Birgis Þórs Bieltvedt og Eyglóar Bjarkar Kjartansdóttur, mun fara með 35% hlut í PPH ehf. sem gekk nýlega frá kaupum á Domino‘s á Íslandi fyrir 2,4 milljarða króna . Þetta kemur fram í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins sem heimilaði kaupin í dag.

Fjárfestingafélagið Kristinn, sem heldur utan um hlut Guðbjargar M. Matthíasdóttur og fjölskyldu, er með 26% í PPH. Þá mun Bjarni Ármannsson, í gegnum félagið Sjávarsýn efh. fara með 26% hlut. Aðrir hluthafar eru Lýsi hf. með 13% hlut og lögmannsstofan Jónsson & Harðarson ehf. með 1% hlut.

Sjá einnig: Domino's á markað?

SKE mat það svo að kaupin væru tilkynningarskyld þar sem Eyja fjárfestingafélag er einnig með 90% hlut í veitingastaðnum Snaps og  83% hlut í Joe Ísland, sem rekur veitingastaðina Joe & the Juice.

Eftirlitið féllst á það með samrunaaðilum að ekki séu vísbendingar um að aðilar málsins hafi eða muni öðlast markaðsráðandi stöðu með samruna þessum og teljast samkeppnisleg áhrif hans óveruleg enda starfa þeir að miklu leyti á ótengdum mörkuðum. Keppinautar samrunaaðila sem rætt var við höfðu engar áhyggjur af samrunanum og tóku undir að samkeppnisleg áhrif hans væru óveruleg, að því er kemur fram í ákvörðun SKE.