Birgir Örn Arnarson hefur verið ráðinn yfirmaður talnagreiningar Kviku og mun formlega hefja störf í byrjun ágúst. Undanfarnar vikur hefur hann verið bankanum til ráðgjafar vegna stefnumótunar í fjártækni. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Um er að ræða nýtt starf sem verður til vegna aukinna umsvifa og mikillar fjölgunar viðskiptavina samstæðu Kviku í kjölfar samruna bankans við TM og Lykil sem og kaupum á fjártæknifélögunum Aur og Netgíró. Birgir mun starfa á skrifstofu forstjóra og hafa yfirumsjón með greiningu tölulegra gagna og gerð gervigreindarlíkana, með það að markmiði að efla tekjustýringu, áhættustýringu og markaðsstarf innan samstæðunnar.

Síðastliðin sjö ár hefur Birgir búið í Lúxemborg og starfað sem yfirmaður hjá alþjóðlega greiðsluþjónustufyrirtækinu PayPal. Undanfarin tvö ár hefur hann gegnt stöðu framkvæmdastjóra áhættustýringar og greiningar í fjárstýringu PayPal samstæðunnar (e. Global head of Risk and Analytics, Treasury), en þar áður var hann yfirmaður áhættustýringar PayPal Europe.

Birgir er með doktorspróf í kennilegri og hagnýtri aflfræði frá Cornell háskólanum í Bandaríkjunum.