Birgir Sigfússon hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri RVX (Reykjavik Visual Effects), sem er hluti af RVK Studios. Birgir stýrir daglegum rekstri félagsins þ.m.t. viðskiptatengslum, samningamálum, fjárreiðum, sölu- og markaðsmálum og starfsmannahaldi.

Frá árinu 2009 starfaði Birgir í London sem viðskiptastjóri The Mill, sem sérhæfir sig í eftirvinnslu kvikmynda og auglýsinga, sem framkvæmdastjóri alþjóðlega stuttmyndafyrirtækisins Future Shorts og einnig framkvæmdastjóri hjá sprotafyrirtækinu MyM-e sem er sérhæfður frétta- og netmiðill.

Áður en Birgir fluttist út til starfa var hann yfirmaður auglýsingadeildar Sagafilm og þar áður framkvæmdastjóri hjá Samfilm. Birgir er með B.Sc gráðu í Viðskiptastjórnun & markaðssetningu frá University of South Alabama.

RVX er tækni-og myndbrellustúdíó sem hefur komið að vinnslu stórmynda eins og Australia, Sherlock Holmes, Contraband, Djúpið, 2Guns, Gravity og er nú að vinna í “ Everest" sem væntanleg er í bíó síðla árs 2015.