Birgir Þór Harðarson hefur verið ráðinn sem framleiðslustjóri hjá H:N Markaðssamskiptum. Birgir Þór er 28 ára  með BA-gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands að því er kemur fram í tilkynningu.

Birgir Þór hefur starfað á Fréttablaðinu bæði í umbroti en síðar sem blaðamaður. Hann er einn stofnenda Kjarnans og starfaði þar sem vefstjóri um fjögurra ára skeið áður en hann færði sig um set yfir til H:N Markaðssamskipta.

„Það er gríðarlegur fengur í Birgi Þór enda fjölhæfur piltur með eindæmum. Hann býr yfir mikilli reynslu og hæfileikum og ekki spillir fyrir hvað hann er skemmtilegur,” er haft eftir Ingva Jökli Logasyni, framkvæmdastjóra H:N Markaðssamskipta í tilkynningunni.

Hjá Kjarnanum stýrði Birgir Þór meðal annars framleiðslu efnis, hannaði heimasíðu miðilsins, stýrði upptökum á hljóðvarpsþáttum auk þess að skrifa inn á vefinn. Birgir var tilnefndur til fjölmiðlaverðlauna umhverfis- og auðlindaráðuneytisins í fyrra, á Degi íslenskra náttúru, fyrir fyrir umfjöllun um loftslagsmál í Kjarnanum, veturinn 2016 - 2017.

Þá segir einnig í tilkynningunni að Birgir hafi eitt sinn þótt efnilegur sundmaður - þá aðallega í langsundi - og hefur sjúklegan áhuga á Formúlu 1. Þá hefur hann áhuga á útivist og ljósmyndun. Sambýliskona Birgis er Hugrún Þórbergsdóttir læknanemi.