Brigitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, viðurkennir í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 að hafa fengið greitt frá Hollywood fyrirtækinu Dreamworks fyrir „ráðgjöf“ við gerð myndar um WikiLeaks, The Fifth Estate

Þorbjörn Þórðarson fréttamaður spurði Birgittu beint út hvort hún hefði fengið greitt: „Já, ég fékk greitt frá Dreamworks. Ég vann sem ráðgjafi við handritsgerð. Það var aðallega til þess að rétta hlut Julian Assange. Það fór öll mín orka í það að tryggja að ekki yrði á hann hallað í myndinni. Það er fullt af þingmönnum sem vinna við ráðgjöf og kennslu. Mér er ekki skylt að birta samninga. Ég hef aldrei neitað því að vera með samning við Dreamworks.“

Spurð hvort þetta voru háar upphæðir sem hún fékk svarar Birgitta: „Þetta voru meðalfjárhæðir miðað við þessa vinnu.“

Á Twitter síðu Wikileaks hefur Birgitta, sem kölluð er gagnsæis drottningin, verið gagnrýnd fyrir að vera með leynisamning við Dreamworks. Hún stundi áróður fyrir fyrirtækið gegn peningagreiðslum. Spurt er hvernig kjósendur geti treyst þingmanni sem þiggi peningagreiðslur samkvæmt samningi sem enginn hafi séð.

Birgitta sjálf fullyrðir að forsprakki Wikileaks, Julian Assange, sé á bak við þessi skrif. Hún spyr hvort honum leiðist í sendiráðinu og hvort hann ætti ekki frekar að reyna að rétta hlut samtakanna eftir fréttir af hlerunum á Íslandi.