Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, fór í bíó í gær. Það sem helst vekur athygli við þessa bíóferð þingmannsins var að Birgitta var að horfa á aðra manneskju leika sjálfa sig í myndinni Fifth Estate. Það er leikkonan Carice van Houten sem fer með hlutverk Birgittu.

Í samtali við Morgunútvarpið á Rás 2 sagðist vera ánægð með það hvernig van Houten hafi tekist til við að túlka sig. „Hún er feykilega góð leikkona,“ segir Birgitta en að þetta hafi verið rosa skrýtið fyrir leikkonuna. „Það er óalgengt að leikarar lendi í þeirri stöðu að hitta persónuna sem þeir eru að leika. Þannig að ég held að þetta hafi verið svolítið spes upplifun fyrir þetta fólk og kannski svolítið óþægileg líka,“ sagði Birgitta.

Á vef Sambíóanna er myndinni The Fifth Estate lýst þannig að hún fjalli um uppljóstranir Julians Assange og samstarfsfólks hans á vefsíðunni Wikileaks og titringinn sem þær uppljóstranir ollu og valda enn.

Sýningin í gær var forsýning en myndin verður frumsýnd á morgun, þann 22. nóvember.

Hér að neðan má sjá stikluna úr Fifth Estate.