Þingmaður Pírata, Birgitta Jónsdóttir, sem hefur verið ásökuð um að hafa ætlað að breyta niðurstöðum prófkjörs flokksins í Norðvesturkjördæmi, bæði af Lilju Magnúsdóttur fyrrum meðlimi kjördæmisráðs Pírata sem og af öðrum heimildarmanni Viðskiptablaðsins sem ekki vildi koma fram undir nafni ber af sér sakir í yfirlýsingu á Pírataspjallinu.

Vegna ummæla um meinta íhlutun mína í prófkjöri Pírata í Norð-Vesturkjördæmi þá langar mig til að koma eftirfarandi á framfæri, segir Birgitta Jónsdóttir á Pírataspjallinu og heldur áfram:

Á mig eru bornar mjög alvarlegar ásakanir um að ég hafi reynt að hafa áhrif á prófkjör Pírata í Norð-Vesturkjördæmi. Ég vil af því tilefni segja eftirfarandi: Ég hef ekki hringt í fólk í þeim tilgangi að hvetja það til að kjósa á einhvern tiltekinn hátt í prófkjörum Pírata undanfarnar vikur.

Ég hef heldur ekki farið fram á að fólki sé raðað á lista eftir einhverri tiltekinni röð, né að listum sé hafnað, hvað þá að ég hafi skipað fyrir um nokkuð í því samhengi; enda hafði ég ekki til þess umboð, vald eða vilja. Sjálf átti ég í erfiðleikum með að ákveða hvernig ég ætti að nýta minn kosningarétt í staðfestingarkosningu fyrir Norð-Vesturkjördæmi, einmitt vegna þess að málefni listans voru flókin og báðar hliðar höfðu eitthvað til síns máls.

Ég vil gjarnan funda með hlutaðeigandi við fyrsta tækifæri til að reyna að skilja hvernig viðkomandi upplifði atburðarás undanfarinna vikna. Hafi upplifun einhverra verið sem svo að ég hafi verið að hlutast til um hvernig málefnum Norð-Vesturkjördæmis ætti að vera háttað, þá var það alls ekki minn ásetningur.

Ég hef fulla trú á því að við Píratar getum leyst þetta í sameiningu þannig að við komum sterkari út úr þessari prófraun. Það er mín ósk að við förum vandlega yfir allt það sem á undan hefur gengið, lærum af reynslunni og byggjum upp sterkari ferla fyrir framtíðina.