Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, reyndi að hafa áhrif á niðurstöður prófkjörs flokksins í Norðvesturkjördæmi, eftir að listi flokksins í kjördæminu hafði verið birtur. Þetta fullyrðir heimildarmaður Viðskiptablaðsins, sem er innanbúðarmaður innan flokksins í kjördæminu, en óskaði eftir því að nafni hans yrði haldið leyndu. Tveir aðrir píratar í kjördæminu hafa sagt Viðskiptablaðinu að frásögnin sé rétt.

Hann heldur því fram að stuttu eftir fyrstu niðurstöður prókjörsins í norðvesturkjördæmi hafi hann fengið símtal frá Birgittu Jónsdóttur, þingmanni flokksins og hafi það símtal varað í dágóðan tíma. Skýrt hafi komið fram í símtalinu að hún væri mjög ósátt við prófkjörsniðurstöðu flokksins í norðvesturkjördæmi þar sem Gunnar Ingiberg Guðmundsson, hefði ekki hlotið 1. eða 2. sætið, heldur lenti í 6. sæti. Hafi hún viljað láta hliðra hlutum þannig að Gunnar Ingiberg myndi færast í að minnsta kosti annað sæti á listanum.

Maður, sem stóð við hlið viðmælanda Viðskiptablaðsins, segir Birgittu hafa talað það hátt í símann að hann hafi heyrt það sem hún sagði og staðfestir frásögnina.

Heimildarmaður Viðskiptablaðsins segir í samtali við blaðið að tilmæli Birgittu hafi komið á óvart og hafi valdið honum hugarangri. Hann var staddur með nýskipuðum lista flokksins á samráðsfundi, en hafi verið þögull alla bílferðina aftur heim, vegna þess hve símtalið hafi tekið á hann.

Hann heldur því jafnframt fram að Birgitta hafi, auk annarra staðið fyrir smölun, annars vegar í kosningum sem snerust um að fella listann í Norðvesturkjördæmi og hins vegar í næstu prófkjörskosningum í kjördæminu. Hann segir þetta sérstakt í ljósi þess að listinn var talinn hafa verið gallaður í vegna meintrar smölunar þess sem lenti í efsta sæti listans í fyrsta prófkjörinu.

Fyrir skömmu birtist gagnrýni af sama meiði frá Lilju Magnúsdóttur , fyrrum meðlimi í kjördæmisráði Pírata í kjördæminu. Lesa má hana hér.

Enn hefur ekki náðst í Birgittu Jónsdóttur.