„Það er margt mjög varasamt í samningnum og það þarf að fara betur yfir hann,“ segir Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Borgarahreyfingarinnar, aðspurð um innihald Icesave samkomulagsins svokallaða.

Birgitta hefur ekki enn fengið að sjá samninginn, frekar en aðrir þingmenn en til stendur að birta hann þingmönnum í dag og í framhaldinu verða þeir birtir opinberlega.

Birgitta segist þó hafa heimildir fyrir því að mörg atriði samningsins séu varasöm fyrir íslenska þjóð, þá sérstaklega 16. grein hans sem fjallar um  upptöku eigna íslenska ríkisins.

Aðspurð um fréttatilkynningu fjármálaráðuneytisins frá því fyrir hádegi, þar sem því er vísað á bug að Bretar eða Hollendingar geti gengið á eignir íslenska ríkisins, segir Birgitta að leita þurfi álita lögfróðra manna hvað þetta varðar og fá úr því skorið.

Hún ítrekar að þingflokkur Borgarahreyfingarinnar sé á móti samkomulaginu og komi til með að greiða atkvæði gegn því.