Í viðtali við Financial Times, sem birt var í dag , rifjar Birgitta Jónsdóttir upp að árið 2003 hafi hana dreymt að hún væri forsætisráðherra. ,,Þetta var martröð" segir Birgitta. ,,Það er minn stærsti ótti að verða slíkur hluti af valdakerfinu og það sama gildir um marga aðra Pírata."

Þetta kemur fram á heimasíðu fjölmiðilsins í dag þar sem meðal annars er rætt við hana um núverandi velgengni flokksins í íslenskum stjórnmálum.

Þrátt fyrir óttann segir Birgitta þó að hún myndi njóta þess að að gera baráttumál Pírata að forgangsmálum ríkisstjórnar. Það myndi vera mikið afrek fyrir stjórnmálaflokk sem stolt hengir hauskúpu-fána  uppí skrifstofu sinni á þinginu. Bendir hún á að markmið og stefnumál flokksins hafi vaxið langt umfram fyrirhugaðar umbætur þeirra á höfundarréttarlögum og feli nú í sér allsherjar umbreytingu á hinu pólitíska kerfi.