„Við erum nú bráðum að fara í allt of langt frí. Ég segi of langt frí vegna þess að við þingheimur getum ekki veitt ríkisstjórninni, eða framkvæmdavaldinu, neitt aðhald í hartnær fjóra mánuði. Mér finnst það óþægilegt,“ sagði Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, í umræðum um störf þingsins á Alþingi í dag.

„Við getum ekki lagt fram fyrirspurnir. Ef eitthvað fer úrskeiðis höfum við engin lýðræðisleg verkfæri til að veita framkvæmdavaldinu neitt aðhald,“ sagði Birgitta. Hún sagði að fyrrverandi forsætisráðherra hafi haft það að stefnu sinni að hafa þingið sitt sem lengst frá í fríi til að ríkisstjórnin gæti gert það sem hún vildi. Þetta væri umhugsunarefni. „Þar af leiðandi mun það ekki klaga neitt upp á mig ef við myndum þurfa að hafa sumarþing,“ sagði Birgitta.