*

sunnudagur, 20. júní 2021
Innlent 18. september 2017 00:28

Birgitta vissi af undirskriftinni

Birgitta Jónsdóttir viðurkennir að hafa vitað af undirskrift föður forsætisráðherra ,,fyrir löngu". Allir ráðherrar hafa aðgang að upplýsingum um uppreist æru en Sigríður Á. Andersen er fyrsti ráðherrann til að samþykkja engar slíkar umsóknir.

Höskuldur Marselíusarson
Haraldur Guðjónsson

Þátturinn Helgarútgáfan á Rás 2 í Ríkisútvarpinu fær venjulega til sín tónlistarmenn sem spila uppáhaldstónlist sína á sunnudagskvöldum. Í kvöld voru það þó þau Birgitta Jónsdóttir þingflokksformaður Pírata og Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar og heilbrigðisráðherra, sem mættu í þáttinn, en þar ræddu þau um allt annað en tónlist.

Var í þættinum farið ítarlega í þeirra hlið á málum síðustu daga og aðdraganda þess að Björt framtíð ákvað að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu tveim dögum eftir að fjárlagafrumvarpið var birt. Þar viðurkennir Birgitta að blaðamaður hefði sagt henni frá undirskrift föður forsætisráðherra á meðmælabréfum um uppreist æru Hjalta Sigurjóns Haukssonar, sem setið hefur af sér dóm vegna brota gegn fósturdóttur sinni.

Þetta sagði hún í samhengi við frásögn af kröfum hennar og fulltrúa annarra flokka en Sjálfstæðisflokksins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd um að sjá gögn um uppreist æru,

Óvinsælt samstarf í baklandinu

Einnig viðurkennir Óttarr að þó hæst beri það sem hann kallar trúnaðarbrest dómsmálaráðherra, þegar upplýst var að forsætisráðherra, en ekki aðrir í ríkisstjórninni, hefðu fengið að vita af undirskriftinni fyrr í sumar, þá snúist málið einnig um að ríkisstjórnarsamstarfið hafi verið óvinsælt hjá baklandi flokksins.

Eins og Viðskiptablaðið benti á síðastliðinn föstudag vissi Óttarr samt sem áður af undirskrift Benedikts Sveinssonar föður Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra á meðmælunum strax í upphafi vikunnar, en ríkisstjórninni var ekki slitið fyrr en aðfaranótt föstudags, tveimur dögum eftir að fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar var lagt fram.

Blaðamaður sagði Birgittu frá undirskriftinni

En áhugaverðast í þessu spjalli hlýtur þó að teljast viðurkenning Birgittu að hún hafi vitað af undirskriftinni í lengri tíma vegna frásagnar blaðamanns sem hún nafngreindi þó ekki. Birgitta segir að hún og aðrir þingmenn, aðrir en fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafi viljað sjá gögn um uppreist æru í júlí, til þess eins að skilja málið.

Birgitta sagðist hafa upplifað mikla tregðu frá ráðuneytinu þegar hún reyndi að afla upplýsinga um málið, oft væri tregða en í þetta sinn hafi þetta verið mjög sérkennilegt. Hallgrímur Thorsteinsson umsjónarmaður þáttarins spyr þó hvort það hafi verið þannig að allir hafi fengið það á tilfinninguna að það væri eitthvað sérstakt þarna í gangi.

„Ég vissi það bara fyrir löngu síðan,“ sagði Birgitta þá. „Það er langt síðan að mér var sagt af blaðamanni, hver hefði kvittað upp á hjá Hjalta, ég bara hreinlega trúði því ekki." Þá spyr Hallgrímur hvort þetta hafi verið vitað meðal fjölmiðlamanna og þá svarar Birgitta um hæl: ,,Það var fullt af fólki sem vissi af þessu, já, það hefur verið lekið i einhverja.“

Óttarr segist skilja tregðuna í samhengi við lekamálið

Hallgrímur spyr í kjölfarið hvort um þetta hafi verið talað þeirra á milli, en Birgitta segist ekki hafa gert það, því hún hafi ekki trúað þessu. „Ég skal segja alveg eins og er að ég hafði ekki heyrt þetta, og hafði ekki hugmyndaflug til að átta mig á þessu, en Ísland er eins og við vitum lítið land og það ganga alls konar sögur, og maður tekur þeim mistrúanlegar," segir þá Óttar.

„Og líka, við skulum ekki gleyma því að þetta er ráðuneyti sem hefur farið í gegnum mjög erfitt mál með lekamálinu, þar sem persónulegum upplýsingum var lekið úr ráðuneytinu, og ég get nú kannski, og ég verð að virða það aðeins við embættismenn ráðuneytisins að þeir hafi aðeins varann á sér með það sem þeir eru að vinna með.“

Gögn aðgengilegum öllum ráðherrum

Fyrrum menntamála- og dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason segir Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra hafa stöðvað allar afgreiðslur umsókna um uppreist æru. Hún hafi þess í stað unnið að breytingum á lögum um endurreisn borgararéttinda eftir afplánun sakamanna, að því er fram kemur í pistli á heimasíðu hans.

Síðan hefur einnig verið bent á þetta á heimasíðunni Andriki.is, sem eiginmaður dómsmálaráðherra ritstýrir, og hún sögð fyrsta manneskjan sem stýrir þessu máli sem hefur ekki ljáð máls á því að afgreiða þessar umsóknir eins og hingað til hefur verið hefði fyrir að gera án athugasemda. Jafnframt segir Björn að allar upplýsingar um uppreist æru sé miðlað til allra ráðherra þar sem þau eru afgreidd á ríkisstjórnarfundi áður en þær fara fyrir forseta Íslands til undirritunar.