Þeir birgjar sem séð hafa Bakkavör fyrir hráefni til framleiðslu eiga nú erfitt með að kaupa skuldatryggingar vegna viðskipta sinna við Bakkavör.

Fram kemur í frétt breska blaðsins The Daily Telegraph að þetta kunni að setja vekja upp spurningar um framtíð Bakkavarar, stærsta ferskvöruframleiðanda Bretlands.

Þar kemur fram að birgjar hafi verið að missa skuldatryggingar sínar þar sem seljendur skuldatrygginganna hafi áhyggjur af skuldum Bakkavarar og endurfjármögnunarmöguleikum.

Rétt er þó að taka fram að markaður með skuldatryggingaálag hefur verið rokkandi undanfarnar vikur en ekki bara með viðskipti tengdum matvælaiðnaði.

Þá telur Telegraph að Bakkavör vinni nú með Rothschild fjárfestingabankanum til að leita lausna í að endurfjármagna um 250 milljónir breskra punda skuld Bakkavarar en blaðið segir félagið skulda um 880 milljónir punda.

Þá hefur Telegraph eftir talsmanni Bakkavarar að eðlileg viðskipti eigi sér stað milli félagsins og birgja þess og engin teikn séu á lofti um að Bakkavör sé í vandræðum.

Þá kemur fram að seljendur skuldatrygginga hafi undanfarið dregið tryggingar sínar til baka þar sem áhyggjur þeirra liggja í matvælaiðnaðinum almennt en ekki í einstaka félögum.

Sjá frétt Telegraph.

ATH. Fréttin hefur verið uppfærð. Í upprunalegri útgáfur var gefið til kynna að birgjar væru ekki að afhenda vörur vegna málsins. Það er ekki rétt heldur eru birgjarnir sjálfir í vandræðum vegna skuldatrygginga sinna. Það skal hér leiðrétt.