Samvinnufélagið KEA og landsliðsmaðurinn Birkir Bjarnason hafa, ásamt Matthíasi Rögnvaldssyni, stofnanda og stjórnarformanni Stefnu og Birni Gíslasyni framkvæmdastjóra Stefnu, keypt 25% hlut í hugbúnaðarfyrirtækinu Stefnu.

KEA eignast með þessu 15% hlut í félaginu en bæði er um að ræða hlutafjáraukningu sem og viðskipti með bréf félagsins.

Markmiðið með viðskiptunum er í tilkynningu sagt vera að styðja við fyrirtækið og áætlanir þess til áframhaldandi vaxtar. Stefna  hefur á undanförnum fimm árum tvöfaldað umsvif sín en fyrirtækið velti 424 milljónum króna á síðasta ári. Horft er til þess að fylgja eftir þróun og markaðssetningu á nýjum vörum sem hafa verið í þróun hjá fyrirtækinu að undanförnu.

Matthías Rögnvaldsson, stjórnarformaður Stefnu og stofnandi, segir í tilkynningu að viðskiptin séu ákveðin viðurkenning á því góða starfi sem hefur átt sér stað í Stefnu á undanförnum árum og hjálpi félaginu að fanga betur þau tækifæri sem framundan eru. Þá sé jákvætt að nýir hluthafar hafi sterk tengsl við Norðurland.

Birkir Bjarnason, leikjahæsti leikmaður íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, ólst að hluta til upp á Akureyri en flutti ungur til Noregs. Birkir hefur fjárfest í fleiri norðlenskum félögum á borð við nýju Skógarböðunum í Eyjafirði.

Halldór Jóhannsson framkvæmdastjóri KEA segist mjög áhugasamur um fjárfestingu félagsins í Stefnu þar sem félagið starfi á síbreytilegum markaði í örum vexti. „Við höfum fylgst með uppbyggingu félagsins á síðustu árum og þegar færi gafst á því að fjárfesta í þessu áhugaverða félagi vafðist það ekki mikið fyrir okkur. Það er tilhlökkunarefni að slást í hópinn og reyna að styðja við það með öðrum hluthöfum og starfsmönnum að gera gott fyrirtæki betra," er haft eftir Halldóri.