Icelandair hefur náð að halda allt að 60% af áætlunarflugi sínu gangandi frá því að eldgosið í Eyjafjallajökli hófst í síðustu viku.

Þrátt fyrir það hafi félagið verið að tapa á milli 400-500 þúsund Bandaríkjadölum, sem eru um 50-65 milljónir króna, þá daga sem flestar flugleiðir lágu niðri vegna öskufallsins frá gosinu.

Þetta sagði Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, í samtali við bandarísku fréttastofuna CNBC í dag.

Í tilkynningu frá Icelandair Group, móðurfélagi Icelandair, í gær kemur fram að samstæðan tapi allt að 100 milljónum króna á dag vegna takmarkaðar flugumferðar til Evrópu. Við tap Icelandair bætist það tap Icelandair Cargo og Bluebird sem bæði eru í eigu samstæðunnar.

Í samtalinu við CNBC segir Birkir Hólm að félagið hafi náð að fljúga öll áætluð flug til Bandaríkjanna og talsvert til Skandinavíu. Á morgun standi til að fljúga til Skandinavíu og Bretlands og vonast sé til að einnig verði hægt að fljúga til meginlands Evrópu.

Hægt er að horfa á viðtalið á vef CNBC