*

mánudagur, 17. júní 2019
Fólk 8. maí 2008 09:29

Birkir Hólm Guðnason ráðinn framkvæmdastjóri Icelandair

Ritstjórn

Birkir Hólm Guðnason hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Icelandair. Hann hefur starfað hjá félaginu um árabil, nú síðast sem svæðisstjóri þess á Norðurlöndum, með aðsetur í Kaupmannahöfn.

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, hefur að undanförnu einnig stýrt Icelandair, en lætur nú af því starfi og einbeitir sér að stjórnun Icelandair Group.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair Group.

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, segir krefjandi verkefni bíða nýs framkvæmdastjóra Icelandair.

„Icelandair er eitt af stærstu fyrirtækjum á Íslandi og gegnir mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi. Birkir er kröftugur stjórnandi sem gjörþekkir starfsemi Icelandair og hefur fjölþætta reynslu úr starfsemi félagsins hér á landi og erlendis. Ég treysti honum og samstarfsfólki hans hjá Icelandair til þess leiða fyrirtækið og þróa í takt við þær breytingar sem jafnan eru í umhverfi okkar. Nú eru blikur á lofti í alþjóðafluginu bæði vegna eldsneytisverðhækkana og eftirspurnar í tengslum við óvissu í efnahagsmálum og því þörf á að taka flugrekstur föstum tökum,” segir Björgólfur í tilkynningunni.

Birkir Hólm Guðnason segist hlakka til að taka til starfa.

„Ég lít á það sem mikinn heiður að fá að leiða Icelandair. Ég hef starfað víða innan fyrirtækisins og veit að innan þess er margt frábært starfsfólk sem ég hlakka til að vinna með. Stóra verkefnið sem við blasir er að reka félagið með góðri arðsemi við þær krefjandi aðstæður sem nú ríkja. Það er spennandi verkefni sem gaman verður að fást við með samstarfsfólki mínu,” segir Birkir.

Birkir er 34 ára gamall, hann lauk BS og mastersnámi í viðskiptafræðum frá Álaborgarháskóla árið 2000 og hefur starfað hjá Icelandair síðan, Fyrst sem sölustjóri á Íslandi, þá sem sölustjóri í Norður-Ameríku, síðan svæðisstjóri í Mið-Evrípu með aðsetur í Frankfurt, og frá 2006 sem svæðisstjóri Icelandair á norðurlöndunum, með aðsetur í Kaupmannahöfn.

Hann er í sambúð með  Fríðu Dóru Steindórsdóttur flugfreyju og hjúkrunarnema og á þrjú börn.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is