Rekstur flugfélaga er ekki auðveldur um þessar mundir og hefur ekki verið síðustu misseri. Icelandair hefur ekki farið varhluta af því en síðustu 12 mánuði hefur mikil hagræðing farið fram hjá félaginu.

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, að ytri aðstæður, s.s. eldsneyti og gengi gjaldmiðla sem falla undir breytilegan kostnað, hafi haft mikil áhrif á rekstur félagsins.

„Ef þessi atriði breytast mjög hratt þarf maður að vera fljótur að aðlaga sig að því,“ segir Birkir.

„Fyrir rúmi ári var eldsneytisverð mjög hátt, svo hátt að það var erfitt að ná tekjum upp á móti, og þá þurftum við að bregðast mjög hratt við. Við vorum mjög ákveðnir í því að taka út leiðir með góðum fyrirvara sem stefndu í það að vera reknar með miklu tapi.“

Birkir segir að fyrirtækið hefði einnig þurft að ná niður rekstrarkostnaði og það mjög hratt. Einn liður í því var að fækka starfsfólki bæði hér heima og erlendis.

„Ég tók við félaginu í maí í fyrra en þá vorum við farin að sjá fram á fyrstu merki kreppunnar. Við tókum þá ákvörðun að sýna aðhald í rekstri og skera niður kostnað. Við þurftum í fyrra að segja upp um 380 starfsmönnum, við breyttum skipulagi á millistjórnendum og tókum út framkvæmdastjórastöður,“ segir Birkir.

Á öðrum stað í viðtalinu stendur:

Ungir menn hafa verið áberandi í íslensku viðskiptalífi síðustu árin en það eru ekki allir sem standa eftir. Það er því ekki úr vegi að spyrja Birki hvernig hann sér fyrir sér framtíð þessarar kynslóðar í viðskiptalífinu.

„Það er enn mikið af ungum stjórnendum í íslenskum fyrirtækjum í dag. Við eigum mikið af góðum stjórnendum. Nú er tími rekstrarmanna en ekki fjárfestinga, tími hinna gömlu gilda í rekstri og þjónustu. Nú er mikilvægt að hafa augun opin, sjá tækifæri á því að gera betur í rekstri en jafnframt að stökkva á tækifæri þegar þau opnast,“ segir Birkir.

__________________________________________________

Í viðtali við Viðskiptablaðið fer Birkir yfir stöðu og horfur félagsins, ungt stjórnunarteymi Icelandair, viðskiptaumhverfi íslenskra félaga á alþjóðamarkaði og nýhafið áætlunarflug til Seattle í Bandaríkjunum.

Áskrifendur geta lesið blaðið á vefnum. Hægt að óska eftir lykilorði og áskrift á vefnum.